Skrifstofa Alþingis hefur óskað eftir því að hún fái hljóðupptökurnar af samræðum fjögurra þingmanna Miðflokksins og tveggja fyrrverandi úr Flokki fólksins. Ætlunin er að afhenda siðanefnd þær en greint var frá því í gær að forsætisnefnd myndi hefja skoðun á svokölluðu Klausturmáli.

Í kvöldfréttum RÚV sagði Þórhallur Vilhjálmsson, forstöðumaður lagaskrifstofu þingsins, að um væri að ræða ýmis gögn. Þannig vildi skrifstofan fá umfjöllun fjölmiðla um málið en einnig skýringar frá þeim sem málið varðar. 

Siðanefndin hefur nú verið virkjuð í fyrsta sinn til að leggja mat á hugsanlegt brot sexmenninganna á siðareglum þingmanna. Nefndin var stofnuð fyrir tveimur árum en Þórhallur segir í samtali við RÚV að hún vinni ekki innan ákveðins tímaramma. Hins vegar hafi forsætisnefnd auk forseta þingsins lagt áherslu á að málið fái hraða meðferð.