Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, segir í bréfi til foreldra skólabarna að þeir sem heimsæki ástvini erlendis þurfi að vera meðvitaðir um aðgerðir við landamærin er komið er heim á ný enda veiran í miklum vexti erlendis.

„Við hvetjum forsjáraðila til að halda börnum á leik- og grunnskólaaldri heima þann tíma sem sóttkví varir og beðið er eftir niðurstöðu úr seinni sýnatökunni,“ segir í bréfi Jóns. Með því að halda börnum heima sé verið að vernda skólastarf.

Fari fólk ekki í sýnatöku á landamærunum gildir fjórtán daga sóttkví og mælst er til þess að börnin séu í sóttkví ásamt forsjáraðilum.

Jón segir að komi upp smit í skólum hafi það mikil áhrif á skólastarf. Þá þurfi oft mörg börn og fjölskyldur þeirra að fara í sóttkví sem sé íþyngjandi aðgerð.