Tilfinningar eru umfjöllunarefni nýjustu bókar Auðar Jónsdóttur, Allir fuglar fljúga í ljósið, nánar tiltekið tilfinningaleg stéttaskipting sem Auður segir lúmskustu stéttaskiptinguna.

„Aðalpersónur bókarinnar er fólk sem fór með ekki alltof góð spil út í lífið,“ segir Auður.

„Ef við höfum ekki fengið rétt viðbrögð við erfiðum upplifunum sem börn, getur það truflað og beyglað svo mikið í tilfinningalífi okkar að við verðum útsettari en ella fyrir erfiðleikum. Ég er að reyna að ná svipmyndum af fólki sem býr við ákveðið getuleysi í tilfinningalífi sínu.“

Ofbeldi er jafnframt umfjöllunarefni en sögupersónan bæði beitir og er beitt ofbeldi.

„Ofbeldi á stundum til að birtast ekki í einni mynd, oft er eitthvert mynstur sem það fæðist upp úr.“ Auður skoðar þannig forsöguna: „Hvar byrjar þetta og hverjar eru sögurnar? Hvað býr í samskiptunum?"

„Ofbeldi á stundum til að birtast ekki í einni mynd, oft er eitthvert mynstur sem það fæðist upp úr.“

Mig langaði að skrifa um konu sem væri búin að gefast upp á að vera með tilfinningar. Ég fór að horfa á höfundarverk mín aftur í tímann og sá þá gegnumgangandi þema í bókunum:

Að það verður einhvers konar áfall í æsku og svo er ég að skoða manneskjuna á fullorðinsárum í einhverri annarri sögu. Það er alltaf þessi forvitni um samspil fortíðar og nútíðar. Að hversu miklu leyti erum við fortíðin? Úr hverju koma viðbrögð okkar? Það er þannig sem ég er að skoða ofbeldi, hvaðan koma svona skrítnir reflexar og hvað gerir okkur útsett fyrir því?

Söguhetjan á mikla ofbeldissögu að baki og fer því út í lífið án þess að vera með sömu tilfinningalegu tækin og tólin og margir.“

Hugmyndin um tilfinningalega stéttaskiptingu er Auði hugleikin.

„Við getum komið frá alls konar misefnuðum heimilum, en það er þetta tilfinningalega öryggi sem er svo lúmsk stéttaskipting. Hversu vel við hvílum í okkur og getum tekist á við lífið og tengt við aðrar manneskjur.“


Ósmart að fjalla um alkóhólisma


Eins og Auður segir hefur hún verið að horfa yfir feril sinn.

„Ég gef fyrstu bókina mína út árið 1998. Hún fjallar um stelpu sem á mömmu sem er alkóhólisti og þetta þóttu ekki fínar bókmenntir þá. Mikael Torfason var að einhverju leyti á svipaðri línu og við þóttum ekki smart í bókmenntalegri kreðsu. Það var skömm sem fylgdi þessu umfjöllunarefni, enda alkóhólismi litinn allt öðrum augum á þessum tíma.“

„Það var skömm sem fylgdi þessu umfjöllunarefni, enda alkóhólismi litinn allt öðrum augum á þessum tíma.“

Báðir ólust höfundarnir upp við alkóhólisma og Auður segist halda að þau hafi átt það sammerkt að vera að brjótast út úr einhverju með skrifum sínum.

„Það er svona mín kynslóð höfunda sem er að byrja að kafa ofan í þetta og maður fékk oft á sig rosa fuss frá eldra fólki, sem fannst þetta ekki viðeigandi. En í raun var ekkert sem maður skrifaði sem kæmist með tærnar þar sem eitt opnuviðtal í Stundinni eða DV er með hælana í dag,“ segir hún, en viðurkennir að hafa upplifað bæði ótta og skömm með því að taka á þessu viðkvæma efni.


Þetta var samt skrítið líf


Auður er 24 ára þegar fyrsta bókin hennar, Stjórnlaus lukka, kemur út.

„Ég var í rauninni að skrifa mig inn í nýtt líf. Ég hafði átt kolsvört unglingsár. Ég týndist gjörsamlega, fékk margoft flog og vaknaði upp á bráðamóttöku, flosnaði upp úr skóla og prófaði þónokkra menntaskóla,“ segir Auður, sem greindist með flogaveiki á unglingsárum. „Ég var mikið til vandræða, enda leið mér oft tætingslega.“

„Ég var mikið til vandræða, enda leið mér oft tætingslega.“

Djammið var fyrirferðarmikið en Auður segist þó ekki hafa leiðst út í eiturlyf.

„Ég held ég hafi bara haft vit á að sleppa dópinu því ég var með flogaveiki. Hún bjargaði mér,“ segir hún í léttum tón.

„Þetta var samt svo skrítið líf, því ég bjó inni á milli hjá ömmu á Gljúfrasteini og jafnaði mig þar, fékk mat og straujuð föt og fór í sund,“ segir hún, en móðuramma hennar og afi voru Halldór og Auður Laxness.

Auður vann við ýmislegt á þessum tíma eins og flestir af hennar kynslóð.

„Ég var á miklum þvælingi um landið og vann í fiski, uppvaski, í bíómyndum og á öldrunarheimili. Foreldrar mínir skildu og því fylgdi öldugangur, stundum var erfitt ástand á heimilinu. Ég átti rosa góða vinkonu, Binnu, á Flateyri og fór þangað mikið og bjó þá hjá henni, á verbúð og á Vagninum.“


Giftist 20 árum eldri manni


Þegar mannskætt snjóflóð féll á Flateyri árið 1995 segist Auður hafa upplifað það sem mikið heimshrun.

„Ég fer vestur í ráðaleysi ungrar manneskju sem heldur að hún geti bjargað heiminum. Þar var ég svo í ár eftir flóðið og þetta var mjög skrítinn tími, enda fóru ansi margir heimamenn burt og í staðinn komu alls konar lukkuriddarar og þarna ríkti skrítin stemning.“

„Þar var ég svo í ár eftir flóðið og þetta var mjög skrítinn tími, enda fóru ansi margir heimamenn burt og í staðinn komu alls konar lukkuriddarar og þarna ríkti skrítin stemning.“

Auður kynntist manni sem var 20 árum eldri en hún og þau hófu samband.

„Hann var rosalega drykkfelldur, hafði verið að grafa upp fólk úr flóðinu og þjáðist líklega af áfallastreituröskun

.Einn daginn vöknuðum við upp og áttum hvorki fyrir sígarettum né kaffi. Ég sagði þá: „Við skulum bara gifta okkur – þá gefa okkur allir allt,“ rifjar hún upp á hispurslausan hátt. Auður hafði samband við Ólaf Helga Kjartansson, þáverandi sýslumann á Ísafirði, og spurði hvort hann gæti gift sig.

„Hann spurði hvenær og ég svaraði „í dag“ og hann sagði mér þá að koma klukkan eitt. Í framhaldi var haldin veisla fyrir okkur á Vagninum og dregið fram lambakjöt úr frystinum og rauðvín og við fengum fullt af sígarettum.“

„Einn daginn vöknuðum við upp og áttum hvorki fyrir sígarettum né kaffi. Ég sagði þá: „Við skulum bara gifta okkur – þá gefa okkur allir allt."

Auður hringdi svo í móður sína með fréttirnar úr tíkallasíma.

„Ég held ég hafi í og með gert þetta til að ögra henni og þetta var náttúrlega sjokk fyrir hana.“


Send til Svíþjóðar að klára bók


Hjónabandið entist aðeins í nokkra mánuði og þar var amma Auðar og nafna, Auður Laxness, áhrifavaldur.

„Ég hafði flutt aftur í bæinn með þennan mann og var í algjöru ráðaleysi. Ég fékk vinnu sem þjónustufulltrúi hjá Stöð 2 á meðan hann þóttist fara í vinnu, en var svo bara á einhverjum nektarbúllum og fylleríi á daginn. Ég byrjaði þá að skrifa bók sem eins konar björgunarlínu. Ég vissi ekkert hvað ég var að gera en hafði alltaf leitað í skrifin frá því ég var lítil.“

Eftir að hafa upplifað sig týnda unga konu og átt að eigin sögn kolsvört unglingsár, skrifaði Auður sig inn í nýtt líf. Fréttablaðið/Valli

Amma Auðar vissi af skrifunum og sagðist gefa henni 100 þúsund krónur ef hún færi með fjarskyldri frænku til Svíþjóðar og kláraði þessa bók.

„Ég bara fór og gleymdi að ég ætti eiginmann og það flosnaði upp,“ segir Auður og hlær.

„Bókin, Stjórnlaus lukka, kom svo út og það urðu algjör kaflaskil í lífi mínu, sem á þessum tímapunkti var fráskilin að vestan,“ segir hún í léttum tón, en um tveimur árum síðar kynntist hún Þórarni Leifssyni rithöfundi sem svo varð maður hennar til 18 ára.

„Að gefa út bók var svolítið eins og maður fengi loksins einhverja prófgráðu,“ segir Auður, sem fékk vinnu á DV og Þórarinn starfaði á Vísi. „Þarna byrjaði bara algjörlega nýr kapítuli.“


Vænd um að fá frípassa


Bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna en Auður minnist þess að tilnefningin hafi verið umdeild. Í framhaldi fékk hún starfslaun og gat því haldið áfram að skrifa.

„Það var auðveldara fyrir ungan höfund á þeim tíma en núna, við vorum ekki það mörg.“

Það loddi lengi við Auði að vera barnabarn Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness.

„Þegar ég fór að sjást skrifa á kaffihúsum og fór að tala um að gefa út bók, heyrði ég eitraðar tungur í kringum mig. Að þarna væri komið vandræðabarnið að reyna að vera eins og afi sinn,“ rifjar hún upp, en segist þó skilja þetta að einhverju leyti.

„Við Huldar Breiðfjörð vorum yngst til að vera tilnefnd, ég kem eftir allan minn vandræðagang, ómenntuð og þetta fór í taugarnar á ákveðinni kreðsu. Fólk leit á þetta sem frípassa og ég man að Guðni Elíasson prófessor hringdi í mig og sagði við mig: „Ekki taka það nærri þér þó allir séu að tala illa um þig.“

„Fólk leit á þetta sem frípassa og ég man að Guðni Elíasson prófessor hringdi í mig og sagði við mig: „Ekki taka það nærri þér þó allir séu að tala illa um þig.“

En þó að Auður segist skilja hvaðan gagnrýnin komi, upplifði hún sig ótengda bókmenntaelítunni sem hún var sökuð um að þiggja frípassa af.

„Þó ég hefði hitt alls konar fólk með ömmu og afa þekkti ég þetta fólk ekki neitt. Ég var bara að gefa út bók og hafði ekkert hugsað út í það að maður fengi gagnrýni eða tilnefningu.“

Auður segist lengi hafa burðast með minnimáttarkennd yfir að vera ekki menntuð í bókmenntafræði eða heimspeki.

„Alveg þar til ég varð svona 35 ára, og ég man eftir stingandi kvíða frá þessum árum.“


Vaknaði frosin hvern morgun


Fyrstu bækurnar fengu misjafna dóma, bæði góða og slæma og bendir Auður á að á þeim tíma hafi slík bókmenntagagnrýni haft mikið vægi, það hafi reynst áskorun fyrir ungan óreyndan höfund að taka neikvæðri gagnrýni, fyrir framan alþjóð.

„Næsta skáldsaga var skrifuð í hálfgerðu óráði og flýti í helgarfríum frá blaðamannsstarfinu. Hún var ekki nógu vatnsheld og maður fékk bunu yfir sig aftur og þær komu reglulega. Það er líka merkilegt að bækurnar sem fara hæst fá líka oft hörðustu gagnrýnina.“

Auður rifjar upp að þegar bókin Ósjálfrátt kom út, hafi hún verið nýbúin að eiga einkasoninn og segir jólabókaflóðið hafa valdið sér miklum kvíða.

„Ég vaknaði frosin hvern morgun og labbaði niður til að skoða blaðið þar sem ég beið eftir dómnum. Þá fattaði ég hvaða áhrif þetta hafði haft. En ég held að þetta sé eitthvað sem flestir ungir höfundar kynnast. Í fyrsta lagi upplifði maður niðurlægingu því þetta er opinbert og tilfinningin var svolítið eins og ástarsorg eftir rosalegt fyllerí og maður gat verið með eymsladofa í marga daga,“ segir Auður og ítrekar að upplifunin sé ekki slík í dag.


Sjálfshjálp sem kryddbaukur


Talið berst að tilfinningum sem oftar en ekki eru Auði yrkis- og rannsóknarefni.

„Ég er mikil tilfinningavera og finnst gaman að pæla í þeim. Framan af voru skrifin mikið leið til að skilja kenndir. Tæki til að ná utan um veruleikann. Á þessum tíma sem ég hef verið að skrifa bækur hefur orðið mikil vakning í öllu sjálfshjálparlingói, svo ég hef öðlast fleiri hugtök og greiningartæki til að skilja.“

Sjálf segist Auður lengi hafa stundað ýmiss konar sjálfshjálp.

„Það getur verið fínt að detta inn á Al-Anon-fund en svo getur líka verið fínt að lesa bók um heimspeki eða dansa. Ég hef alltaf bara notað þetta eins og kryddbauk.“

„Það getur verið fínt að detta inn á Al-Anon-fund en svo getur líka verið fínt að lesa bók um heimspeki eða dansa."

Fyrir tveimur árum kom út bók Auðar, Tilfinningabyltingin. Á þeim tíma var Auður að ganga í gegnum skilnað við eiginmann sinn og barnsföður og varð sú upplifun henni innblástur.

„Einhver sagði mér að skilnaðarferlið væri að sumu leyti eins og meðganga. Meðganga getur verið svo intensív að fátt annað kemst að, en svo er þetta bara blörr á eftir. Það er svipað með skilnað.“


Skilnaður á breytingaskeiðinu


Hjónin bjuggu í Berlín ásamt ungum syni og lýsir Auður sér sem ráðsettri móður á þeim tíma.


„Svo skiljum við óvænt og það fór allt í uppnám. Ég var að flytja á milli landa, heimilið að flosna upp, við að skilja, ég lenti í réttarhöldum vegna meiðyrðamáls sem höfðað var á hendur mér og ég byrjaði á breytingaskeiðinu,“ telur Auður upp.

Auður lýsir sér sem mikilli tilfinningaveru og hefur notað skrifin sem tæki til að ná utan um veruleikann. Fréttablaðið/Valli

„Í þeim greinum sem ég hef lesið um breytingaskeiðið er mælt með því að láta fjölskylduna hlúa að sér, en ég var bara á kúpunni að taka að mér öll frílansverkefni sem buðust, með tóma íbúð og sífellt í réttarhöldum sem hefðu getað farið alla vega.“

Þá varð Tilfinningabyltingin til, ekki ósvipað og frumraun Auðar, Stjórnlaus lukka.

„Ég hélt ég væri hætt að skrifa til að skilja, en í þessari bók verður þetta alveg bjargráð. Ég skrifaði hana ógeðslega hratt og í hálfgerðu óráði. Ég gat skrásett ferlið af því að ég var inni í því, en núna man ég varla hvernig þetta var, ekki ósvipað og þegar maður fer í gegnum meðgöngu og fæðingu.“

Tilfinningabyltingin varð umdeild og fólk skiptist á að hrífast og rífa hana niður.

„Þetta varð því svolítil rokkbók, en hún fer mikið út á bókasöfnum og ég held að það sé þar sem svo margir eru í þessum pælingum.“

En eins og Auður nefndi var skilnaðurinn alls ekki eina stóra umbreytingin á þessum tíma. „Ég var svo tætt að systir mín sagði mér fara til kvensjúkdómalæknis og láta mæla í mér hormónana. Ég gerði það og kom í ljós að þeir voru í lágmarki.

Ég sagði við lækninn: „Ertu að segja mér að ég sé búin að skrifa heila bók sem heitir Tilfinningabyltingin og þetta sé bara breytingaskeiðið?“ segir hún og hlær.

Fráskilin á miðjum aldri fór Auður að stunda skemmtanalífið í Reykjavík, eitthvað sem hún hafði ekki gert allt sitt hjónaband. „Þetta var bara sturlaður tími. Maður fór aftur að fara á barina og ég held að það hafi bara bjargað lífi mínu.“

„Ég sagði við lækninn: „Ertu að segja mér að ég sé búin að skrifa heila bók sem heitir Tilfinningabyltingin og þetta sé bara breytingaskeiðið?“

Hélt hún gæti ekki eignast börn


Eftir rússíbanareið og tilfinningabyltingu er Auður lent, búin að ná jafnvæginu sem þeir með reynsluna sögðu að hún myndi ná tveimur árum eftir skilnað.

„Ég á kærasta í dag og allt bara gaman,“ segir Auður, en bendir á að allt hafi þetta sína kosti og galla.

„Það er rosa fínt að vera í góðu hjónabandi en líka rosa gott að vera bara einn á miðjum aldri, því það er tækifæri til að átta sig á því hvernig maður vill hafa líf sitt. Maður fær svo mikið skilgreiningar- og uppgötvunarvald í tilverunni.“

Einkasonurinn er orðinn tíu ára og skipta foreldrarnir uppeldinu jafnt á milli sín.

„Þetta er eina barnið mitt svo það er alltaf einhver tregi að vera ekki alltaf með hann, en það er gott líka að geta skipst á að vera mikið með honum og svo rosa mikið að vinna og stússast.“


Langaði þig aldrei í fleiri börn?


„Jú, jú, það bara gerðist ekki. Við höfðum verið saman í ellefu ár þegar hann kom í heiminn,“ segir Auður, sem varð móðir viku fyrir 38 ára afmælisdaginn. „Ég var farin að halda að ég gæti ekki eignast börn en hafði ekki farið í neina rannsókn því tengda,“ segir Auður, sem segir þau hafa ákveðið að líta svo á að þetta gerðist bara ef það gerðist.


„En ég var þó farin að finna fyrir depurð, það vantaði eitthvað. Svo einn daginn var ég úti að hjóla í Berlín og fékk svo mikið svimakast að ég hjólaði næstum fyrir sporvagn, svo kom bara í ljós að ég væri ólétt. Þetta var alveg út í hött,“ segir hún með áherslu.

„Svo bara kom hann í heiminn og það var rosaleg gleði. Mér finnst það breyta manni svo mikið að eignast barn. Það er eins og hver einasta fruma inni í manni fari í endurnýjun.

Maður sér hlutina á nýjan hátt og ég fór að horfa öðrum augum á mömmu mína og ömmu og hluti eins og fæðingarþunglyndi. Það opnast nýtt spektrum, en koma barns getur þrátt fyrir góðan vilja líka breytt parasambandi í eitthvað annað. Það bara breytir öllu.“