Sérfræðingar Veðurstofunnar telja ólíklegt viðlíka skriða og sú sem féll á Seyðisfirði á föstudag hafi hlaupið á sama svæði í jafnvel þúsundir ára.

Þá vanmátu þeir aðstæður þar sem skriðan féll utan Búðarár á sunnanverðum Seyðisfirði en ekki var búist við skriðu að þessari stærðargráðu. Höfðu jarðfræðilegar greiningar ekki heldur gefið til kynna ummerki um stórar forsögulegar skriður á sama stað.

Skriðan annars eðlis

Ofanflóðasérfræðingar höfðu hins vegar búist við jarðvegsskriðum í líkingu við þær sem féllu fyrstu dagana og að þær gætu farið stækkandi.

Þetta kom fram í máli Hörpu Grímsdóttur, fagstjóra hjá ofanflóðavakt Veðurstofunnar á íbúðafundi Múlaþings sem haldinn var vegna skriðufallanna sem áttu sér stað í síðustu viku.

Stóra skriðan sem féll síðdegis á föstudag hreif með sér tíu hús en hluti af svæðinu sem hún féll á var utan skilgreinds hættusvæðis. Þó var búið að láta íbúa þar vita af skriðuhættunni.

Að sögn Hörpu var skriðan annars eðlis en þær sem höfðu fallið dagana á undan þar sem hún náði djúpt ofan í þykk setlög sem talið er að hafi verið óhreyfð í langan tíma.

Gríðarleg úrkoma á svæðinu

Harpa fór einnig yfir aðraganda fyrstu aurskriðunnar sem féll á Seyðisfirði síðasta þriðjudag en tveimur dögum áður hafði Veðurstofan varað við auknum líkum á skriðuföllum og grjóthruni á Austfjörðum.

Mikil úrkoma hafði fallið á svæðinu í aðdraganda skriðufallanna og var uppsöfnuð úrkoma 569 mm á dögunum 14. til 18. desember.

Á þriðjudag mælti Veðurstofan með því að almannavarnir myndu lýsa yfir hættustigi fyrir Seyðisfjörð og að hús yrðu rýmd þegar bera fór á skriðuföllum.

Fór rýming fram samdægurs og næstu þremur dögum bætt við svæðum þar sem mælt var með rýmingum eða varúð.

Hyggjast koma á rauntímavöktun

Enn á eftir að fara betur yfir mælingar sem gerðar hafa verið í dag en að sögn Hörpu hefur speglum verið fjölgað í kringum sár stóru skriðunnar og í Botnabrún til að mæla hreyfingu í hlíðinni.

Mælingar á svæðinu síðustu daga benda til að hreyfing hafi hægt á sér og mælingar á vatni í borholum auk gagna frá síritandi vatnshæðamælum sýna að vatnsþrýstingur hafi farið lækkandi.

Er nú unnið að áætlunum um rauntímavöktun á svæðinu og uppsetningu mælibúnaðar sem gerir sérfræðingum kleift að meta aðstæður á svæðinu í rauntíma.

Fram hefur komið í dag að vonir standa til að að hægt verði að aflétta hluta rýmingasvæðisins á Seyðisfjörðum í dag eða á morgun og leyfa þannig fleiri íbúum að fara heim til sín.