Skráningu á kynþætti fólks í heilsufarsskrá hefur verið breytt. Fólk af afrískum uppruna sem áður var skráð sem „negrítar“ er nú skráð sem „af afrískum uppruna.“ Hulda Hjartardóttir, yfirlæknir á fæðingadeild Landspítalans staðfestir það í samtali við Fréttablaðið en Mbl.is greindi fyrst frá.

„Það var endurtekið að koma upp að fólki líkaði ekki þetta orð og þess vegna er búið að breyta þessu,“ segir Hulda. Fréttablaðið fjallaði fyrst um mál Evu Þóru Hartmannsdóttur sem vakti athygli á því að hún hafi verið flokkuð sem „negríti“ í skráningarkerfi Mæðraverndar. Hún lýsti því að henni hafi brugðið við að sjá orðið enda væri ekki leyndarmál hvaðan orðið var tekið. Þegar hún spurði út í orðið var henni einfaldlega sagt að þetta hafi alltaf verið svona.

Stuðaði starfsmenn

„Þetta stuðaði ákveðna starfsmenn og fólk hváði þegar það heyrði það“ segir Hulda en tekur fram að orðið hafi aldrei verið notað í annarlegum eða neikvæðum tilgangi.

Hulda segir ákveðna líffræðilega áhættuþætti fylgja þessum kynstofn og þess vegna þurfi slíka skráningu í heilsufarssögu fólks. Hún tekur fram að þegar hanna átti rafrænu mæðraskránna þá hafi hún leitað til stofnanna um hvaða íslenska orð væri notað yfir fólk af afrískum uppruna.

Eva Þóra furðaði sig á því að þetta orð væri notað.
Mynd/Sara Björk

Ekki nógu lýsandi orð

„Þetta voru þær upplýsingar sem við fenguð og ég hef svo sem ekki fundið þetta orð í neinum orðabókum en þetta var okkur gefið upp sem rétt orð yfir afrískan kynstofn,“ bætir Hulda við.

„Þetta er lýsandi orð yfir „sub-Saharan origin“ eða svartan kynstofn en það virðist ekki vera til nógu gott orð yfir það á íslensku.“ Hulda segir upprunaland ekki vera nógu góða skilgreiningu þar sem fæðingarland segi ekkert til um kynstofn. „Það er fullt af fólki sem býr í Afríku sem er ekki af þessum kynstofn, stúlkan sem fjallað var um í fréttunum var til dæmis Íslendingur og af þessum kynstofn þannig það tengist ekki upprunalandi.“

Búið að uppfæra skráninguna

Þrátt fyrir að nýja skráningin sé, að sögn Huldu ekki nægilega lýsandi hefur skráningu verið breytt í nýjustu útgáfu rafrænu skránni í öllum umdæmum nema einu, en þar verði kerfið uppfært á næstu mánuðum.