„Viðkomandi hefur því að öllum líkindum keyrt heiðarnar báðar eftir að þær voru skráðar færar en ekki vitað af því,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar. Á vef Fréttablaðsins í gær var birt viðtal við byggingatæknifræðinginn Einar Haraldsson. Hann ók í gærmorgun ók á breyttum jeppa yfir Gemlufallsheiði, Hrafnseyrarheið og Dynjandisheiði, á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar, en komst að því að rennifæri var alla leiðina. Engin ummerki voru um bleytu eða snjó á vegi, þrátt fyrir að heiðarnar hefðu fram að því verið skráðar ófærar. Þær voru svo skráðar færar sama dag.

Sjá einnig: Þetta er dónaskapur gagnvart íbúum Vestfjarða

G. Pétur segir við Fréttablaðið að Hrafnseyrarheiði hafi verið merkt greiðfær klukkan 8:15 í gærmorgun en Dynjandisheiði merkt með hálku 9:17, eftir færðargreiningu. „Daginn áður var heiðin ófær og það strax í Pennusneiðing ofan við Flókalund,“ segir hann. 

Myndbönd sem Einar tók úr bílnum sýna að enginn snjór var á vegi og færðin virðist mjög góð. Einar sagði við Fréttablaðið að heiðarnar hefðu verið greiðfærar Yaris.

Í fréttinni í gær kom fram að heiðarnar hefðu verið skráðar opnar á vef Vegagerðarinnar eftir hádegið, en G. Pétur segir að það hafi verið fyrr, eða um morguninn eins og áður greinir. „Viðkomandi hefur því að öllum líkindum keyrt heiðarnar báðar eftir að þær voru skráðar færar en ekki vitað af því,“ segir hann.

Eins og sjá má í myndböndunum er vegurinn marauður, þar sem það er tekið upp. Spurður hvað hafi verið að færð á Dynjandisheiði í fyrradag svarar G. Pétur að í birtingu á miðvikudagsmorgunn hafi verið farið á Dynjandisheiði. „Eftirlitsmaðurinn snéri við í Pennusneiðingnum vegna ófærðar af miklum krapasnjó og „manndrápshálku“ og var það mat okkar að ekki væri rétt að hleypa umferð á heiðina. Ekki er vafi í okkar huga að þetta mat hafi verið rètt.“ Hann bætir við að þarna hafi verið „gríðarleg leysing“ á miðvikudag.

Færðarskráningar eru að sögn G. Péturs aldrei 100 prósent öruggar enda séu breytingar á veðri og ástandi ótrúlega hraðar, sérstaklega á fjallvegum. „En við beitum öllum ráðum til að skrá ástandið einsog það er og eins fljótt og það breytist, en við viljum líka vera varkár og viss áður.“ Hann tekur undir að mikilvægt sé að skráningarnar séu réttar , annars sé hætta á því að á þeim sé ekki tekið mark. „Síðan hefur á síðustu árum, með hinni gríðarlegu aukningu ferðamanna í umferðinni, komin upp ný staða, og það sem oft getur verið auðveldar aðstæður fyrir vanan Íslending er það ekki fyrir óvanan ferðamann á Yaris.“

Hér fyrir neðan er annað myndband af Dynjandisheiði, sem merkt hafði verið ófær deginum áður.