Mikil aukning var á skráðum kyn­ferðis­brotum hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu í desember miðað við mánuðinn á undan. Alls voru 774 hegningar­laga­brot skráð í síðasta mánuði í höfuð­borginni og fjölgaði frá því sem var í nóvember. Þetta kemur fram í mánaðar­skýrslu lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu fyrir desem­ber­mánuð.

Sam­kvæmt til­kynningu frá lög­reglu er á­stæða aukningar á skráðum kyn­ferðis­brotum sér­stakar að­gerðir gegn man­sali og vændi. Í desember bárust lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu 74 til­kynningar um kyn­ferðis­brot en tíu í nóvember. Skráð voru 44 kyn­ferðis­brot í síðasta mánuði en 63 í nóvember.

Samantekt á afbrotatölfræði í desember.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Fækkun varð á til­kynningum um þjófnaði milli mánaða, úr 317 í 278, sem og til­kynningum um nytja­stuld á vél­knúnum öku­tækjum. Þær voru alls 21, níu færri en í mánuðinum á undan. Tals­verð fjölgun var á minni­háttar eigna­spjöllum og hafa skráðar til­kynningar um eigna­spjöll hafa ekki verið fleiri síðan 2010. Þær voru 163 í desember en 103 í nóvember. Tekið er fram í skýrslunni að í fyrra bárust á­líka margar til­kynningar um eigna­spjöll og bárust að meðal­tali árin 2017-2019.

Oftar óskað eftir aðstoð við leit að börnum og ungmennum

Skráðum of­beldis­brotum fækkaði úr 96 í 80 milli mánaða og það sama má segja um til­kynningar um heimilis­of­beldi en þær voru 60 talsins í desember og 72 í nóvember. Til­vikum þar sem lög­reglu­þjónn var beittur of­beldi fækkaði á milli mánaða, úr þremur í tvö en ein til­kynning barst um til­vik þar sem lög­reglu­þjóni var hótað of­beldi sem er sami fjöldi og í nóvember.

Í desember bárust lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu 16 beiðnir um leit að börnum og ung­mennum, fjórum fleiri en í nóvember.

Þrjú stór­felld fíkni­efna­brot voru skráð á höfuð­borgar­svæðinu í desember og fjölgaði skráðum fíkni­efna­brotum milli mánaða. Þau voru alls 89, tíu fleiri en í nóvember. Til­kynningum um akstur undir á­hrifum á­vana-og fíkni­efna fjölgaði milli mánaða, úr 113 í 149, sem og til­kynningum þar sem öku­maður var grunaður um ölvun við akstur, úr 44 í 55. Í desember voru skráð 621 um­ferðar­laga­brot að undan­skildum hraða­mynda­vélum.