Skráðum einstaklingum í þjóðkirkjuna hefur fækkað um 403 síðast liðna tólf mánuði.

Í upphafi desembermánaðar voru 229.314 manns skráði í þjóðkirkjuna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Þjóðskrá Íslands.

Skráðum í Kaþólsku kirkjuna hefur fjölgað um 88 manns síðast liðið ár. Nú eru skráðir 14.739 einstaklingar í Kaþólsku kirkjuna sem er næst fjölmennasta trúfélag landsins.

Mest hefur fjölgað í Siðmennt. Frá upphafi árs hefur skráðum í Siðmennt fjölgað um 579 meðlimi og í Ásatrúarfélaginu hefur fjölgað um 406 meðlimi.

Mest var hlutfallsleg fjölgun í trúfélagi hjálpræðishersins en þar eru nú skráðir 157 meðlimir í heild sinni.

Í upphafi mánaðar voru 29.139 landsmenn skráðir utan trú- og lífskoðunarfélaga sem telur um 7,8 prósent landsmanna.