Origo og Hrafnista hafa undir­ritað sam­starfs­samning sem snýr að því hvernig megi nýta staf­rænar lausnir til að halda sem best utan um starf­semi hjúkrunar­heimila og hvernig megi bæta um­önnun íbúa Hrafnistu, sam­skipti við að­stand­endur, á­samt því að ná fram hag­kvæmni í vinnu og rekstri heimilanna.

„Hrafnista mun taka upp Smá­sögu app lausn Origo og nýta hana í allri skráningu á um­önnun sinna íbúa. Þetta mun auka öryggi og gæði í þeirri þjónustu sem Hrafnista veitir sínu heimilis­fólki,“ segir Arna Harðar­dóttir, sölu- og markaðs­stjóri heil­brigðis­lausna Origo, í til­kynningu en með appinu geta starfs­menn heil­brigðis­þjónustu skráð upp­lýsingar um skjól­stæðinga sína í raun­tíma í gegnum snjall­síma

Með fram notkun Smá­sögu munu Hrafnista og Origo greina hvernig hægt er nýta nú­verandi lausnir og á sama tíma þróa nýjar lausnir sem gefa betri sýn á þjónustu og starf­semi hjúkrunar­heimila. Fram kemur í tilkynningu að mikil­vægur hluti af þessu sam­starfi verður að þróa lausn sem hjálpar að­stand­endum að eiga sam­skipti við hjúkrunar­heimili sinna fjöl­skyldu­með­lima. Þetta verður gert til að bæta og ein­falda upp­lýsinga­flæði þar á milli.

„Við trúum því að með því að nýta staf­rænar lausnir betur í okkar þjónustu mun Hrafnista fá betri yfir­sýn á vinnu og rekstur heimilanna og til fram­tíðar auka hag­kvæmni í okkar starfi,“ segir Gunnur Helga­dóttir, fram­kvæmdar­stjóri heil­brigðis­sviðs Hrafnistu.