Engin skrá er haldin utan um fljúgandi furðuhluti yfir Íslandi. Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að alltaf hafi tekist að skýra óþekkta hluti í loftrýminu og að ekkert hafi birst á ratsjá þeirra sem ekki hefur verið hægt að gera skil á.

„Öll atvik eru tilkynnt til stjórnstöðvar NATO sem tekur ákvarðanir um hvað og hvort eitthvað sé gert,“ segir Ásgeir.

Tilkynningar berast lögreglu og veðurstofu

Veðurstofunni berast reglulega tilkynningar um torkennilega hluti á himni. Ekki er haldið utan um fjölda tilkynninganna en í flestum tilfellum eru eðlilegar skýringar að baki, samkvæmt upplýsingum frá veðurvakt Veðurstofunnar.

„Oftast er um óvenjulegt ljósbrot í skýjum að ræða og stundum eitthvað annað sem útskýrist af geimveðri, loftsteinum eða ferð reikistjarna eða gervihnatta,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu.

Lögreglunni berast einnig einhverjar tilkynningar þegar fólk telur sig hafa séð einkennilegan hlut eða ljós á himni en engin skrá er haldin yfir það. Ef ástæða þykir er einhver sendur á vettvang að skoða málið en engin dæmi eru um mál sem hefur þurft að taka til nánari rannsóknar. Þetta kemur fram í svari Runólfs Þórhallssonar, yfirmanns greiningardeildar lögreglunnar.

Mikill áhugi hefur verið á fljúgandi furðuhlutum undanfarin ár í kjölfar þess að Pentagon, höfuðstöðvar varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, játaði tilvist verkefnis sem skrásetti og fylgdist með óþekktum fyrirbrigðum á himni. Verkefnið kallast Advanced Aero­space Threat Identification Program, eða greining á þróuðum ógnum í loftrými.

Þrjú myndbönd, sem tekin voru af flugmönnum sjóhers Bandaríkjanna, láku til almennings á árunum 2007 og 2017. Myndböndin vöktu mikla athygli en á þeim mátti sjá hluti á himnum sem höguðu sér torkennilega. Í tveimur myndbandanna mátti heyra í flugmönnunum tala um hlutina og ljóst er að þeir vissu ekki hvað þeir væru.

Í apríl á þessu ári birti varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna þessi myndbönd opinberlega til að „koma í veg fyrir mis­skilning meðal al­mennings um hvort mynd­böndin í um­ferð væru raun­veru­leg og hvort fleiri slík mynd­bönd væru til,“ eins og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Skjáskot úr myndbandi frá sjóher Bandaríkjanna.
Skjáskot.

Enn vakti það athygli á málefninu þegar Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, mætti í sjónvarpsþáttinn The Late Late Show with James Corden og svaraði spurningum um myndböndin.

„Það sem er satt, og mér er alvara, er að við eigum myndefni og skrár um hluti á himnum sem við vitum ekki nákvæmlega hvað eru,“ segir Obama. „Við getum ekki útskýrt hvernig þeir hreyfast, flugleiðina þeirra. Mynstrin þeirra eru ekki auðútskýranleg. Þannig ég tel fólk enn vera að taka þessu alvarlega, reyna að rannsaka og finna út hvað þetta er.“

„Það sem er satt, og mér er alvara, er að við eigum myndefni og skrár um hluti á himnum sem við vitum ekki nákvæmlega hvað eru.“

Búist er við því að Pentagon gefi út opinbera skýrslu um niðurstöður verkefnisins þann 25. júní. New York Times hefur þó birt einhverjar upplýsingar úr skýrslunni nú þegar. Þar kemur fram að ekkert bendi til þess að um geimverur sé að ræða í umræddum myndböndum. Þó segir að ekki sé heldur hægt að útiloka það. Ekki hefur verið hægt að skýra hlutina eða óvenjulegar hreyfingar þeirra.