Um fjögur hund­ruð Íslendingar erlendis hafa skráð sig á tæpum sólarhring í gagnagrunn utanríkisráðuneytisins vegna COVID-19 veirunnar. „Þessar viðtökur komu okkur í raun í opna skjöldu,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.


Markmiðið með gagnagrunninum er að yfirvöld geti með skjótum hætti komið upplýsingum til Íslendinga sem staddir eru á erlendri grundu. „Það er ekki ætlunin að vera með daglegar uppfærslur á stöðu mála, heldur frekar að tilkynna fólki um mikilvægar breytingar á stöðu mála þar sem það er statt,“ segir Sveinn.

Hann segir að skráningar hafi borist frá öllum heimshornum en þó flestar frá Tenerife. „Það þarf ekki að koma neinum á óvart. En að auki hafa borist skráningar frá Danmörku, Taílandi og Rúanda svo einhver lönd séu nefnd. Það er greinilegt að útbreiðsla veirunnar er ofarlega í huga þeirra sem staddir eru utan landsteinanna,“ segir Sveinn.


Sóttvarnalæknir hefur varað við ónauðsynlegum ferðum til Suður-Kóreu, Írans, Kína og fjögurra héraða á Norður-Ítalíu. Ekki er mælst til þess að fólk hætti við ferðir til Tenerife, en hvatt er til sérstakrar varúðar þegar ferðast er til eyjunnar sólríku. Það sama gildir um ferðir til annarra svæða á Ítalíu og til Japans, Singapúr og Hong Kong.


Alls hafa 38 ein­staklingar ver­ið rann­sak­að­ir af sýkl­a- og veir­u­fræð­i­deild hér á land­i vegn­a gruns um smit, en eng­inn þeirr­a reynd­ist vera með veir­un­a.

Í gær staðfesti utanríkisráðuneytið að tíu Íslendingar væru í sóttkví á H10 Costa Adeje Palace-hótelinu á Tenerife. Fjögur staðfest smit hafa komið upp á hótelinu.