Það var rífandi stemmning á Brasserí Kársnes í hádeginu og fullt út úr leyfilegum dyrum þegar ljósmyndari Fréttablaðsins rann á ilminn. „Hér var skata og saltfiskur með fullri þjónustu og svo Ris a la Mande í eftirrétt,“ segir Ólafur Helgi Kristjánsson, matreiðslumeistari og eigandi Brasserí Kársnes. Færri komust að en vildu í skötuboðið hans en eftir að nýjar sóttvarnarreglur tóku gildi ákvað Ólafur að dreifa gestum yfir lengri tíma.

„Þeir fyrstu komu um hálf tólf og þeir síðustu hurfu út í jólaösina um hálf fjögur leitið. Það var rífandi stemmning í fólki og skatan þótti kæst og góð. Djúpið sá um að skaffa mér sjávarfangið sem rann svo ljúft niður í mannskapinn," segir Ólafur sem er nýbúinn að opna og er fyrir neðan nokkrar íbúðir á Kársnesi. Engu að síður var ekkert kvartað undan lykt í hverfinu enda Ólafur með loftræstikerfi sem aðrir öfunda.
„Ég klára kvöldið með hefðbundinn mat á matseðlinum. Það er vel bókað í kvöld þannig við gerum vel í kvöld og förum svo í í jólafrí fram á þriðjudag," segir Ólafur sem ætlar að halda upp á afmæli dóttur sinnar á morgun og njóta hátíðarinnar
