Glæpagengi sem kallast Los Petules hefur flæmt hóp foreldra úr mexíkóskum smábæ, eftir að barnaheimili vann í lottóinu. Kalla foreldrarnir eftir aðstoð stjórnvalda til þess að geta snúið aftur heim.

Barnaheimili nálægt Ocosingo í suðurhluta Mexíkó vann 20 milljónir pesóa, eða um 125 milljónir króna, fyrir rúmu ári, í lottói sem stjórnvöld komu á fót til þess að fjármagna forsetaþotuna. Foreldrar barnanna áttu að ráðstafa fjármununum, en eftir að það fréttist fóru þeir að fá hótanir frá genginu sem vildi að peningarnir yrðu notaðir til vopnakaupa.

Einn faðir var skotinn til bana og 28 fjölskyldur hafa flúið eftir hótanir. Í ákalli um hjálp sagði foreldrafélagið að gengið hefði eyðilagt heimili fólks, drepið húsdýr og eyðilagt uppskeruna.