Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar, segir að minnsta kosti tvö göt eftir byssukúlur sem fundust á peysu Armando Beqirai benda til þess að hann hafi verið skotinn í bakið.

Sérfræðingar og lögregluþjónar eru í dag leiddir í vitnastúkuna til að gefa skýrslu um daginn sem Armando var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði.

Johann Frederick Petersen, danskur sérfræðingur sem kom að málinu, sagði að niðurstöður úr DNA rannsókn af sýni af morðvopninu hafi verið ónákvæmar. Í nokkrum sýnum væri að finna DNA frá fleiri en einum einstakling en í einu sýni var til að mynda að finna DNA úr þremur einstaklingum.

Nafn Claudiu Sofiu Carvahlo og Angjelin Sterkaj var nefnt sérstaklega í skýrslunni frá Danmörku um skotvopnið en þar kom fram að ekki væri hægt að segja hversu líklegt það væri að eitt sýni hafi komið frá þeim. Sagði Frederick að ekki væri hægt út frá þeirra aðferðum hvort sýnið komi frá Angjelin og Claudiu eða ekki.

„Það sem ég er að segja er að næstum því allar tölurnar úr viðkomandi manneskju finnast þarna en ekki allar, útreikningar geta ekki sagt með eða á móti hver sú manneskja væri,“ sagði Frederick og vísaði þar helst til Angjelin. Það væri dómarans að ákveða í tengslum við málið.

Líklega skotinn í bakið

Angjelin Sterkaj sagði í vitnisburði sínum í gær að hann hafi skotið Armando og verið einn að verki. Játning Angjelin í málinu hafði legið fyrir frá því í mars en hann bar í gær fyrir sig sjálfsvörn eftir að hafa séð hann teygja sig í haglabyssu.

„Þá byrja ég að setja upp hljóðdeyfi og hann sér það,“ sagði Angjelin í gær og hélt því fram að Armando hafi hótað sér. „Þegar hann kom út úr bílskúrnum ætlaði ég að spjalla við hann. Armando sagðist ætla að drepa mig og börn mín og ráðast á mig. Þarna tók ég byssuna upp um leið og hann ætlaði að ráðast á mig. Þá tók ég byssuna upp og byrjaði að skjóta.“

Í dag var farið yfir gögn úr réttarkrufningu. Kolbrún Benediktsdóttir spurði Björgin hvaða ályktanir væri hægt að draga út frá fatnaði og staðsetningu skotsáranna. Björgvin sagði ellefu göt hafa fundist á peysu Armando, sjö á framhlið og fjögur á bakhlið. Eitt gatið hafi þó líklega komið eftir að peysa Armando var klippt af honum.

Taldi hann að að minnsta kosti fimm göt hafi verið innskotsgat, þar sem kúla fór í gegn, en með hin væri ekki hægt að segja til um hvort þau hafi verið innskots eða útskots. Eitt gat á bakhlið peysu Armando var með hvítan hring í kringum það, sem bendir til að um innskots hafi verið að ræða og var annað skot sporöskjulaga og þræðir peysunnar bráðnaðir í kring sem bendir til að kúlan hafi farið inn á ská.

„Bendir það til að hann hafi verið skotinn í bakið?“ spurði Kolbrún um tvö skotsár á baki Armando og svaraði Björgvin: „Já.“

Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando sem bar vitni í morgun, sagðist telja að Armando hafi verið á leiðinni inn í húsið þegar hann var skotinn miðað við hvernig hann lá nálægt innganginum.

Fréttin hefur verið uppfærð.