Félagsmenn í Skotfélagi Reykjavíkur og Skotreyn, sem eru með aðstöðu til æfinga á Álfsnesi við Kollafjörð, þvertaka fyrir að blýmengun af þeirra völdum ógni þar dýraríki.

Guðmundur Lárusson, einn af landeigendum á Álfsnesi, kvaðst í Fréttablaðinu fyrr í vikunni ætla að blýmengun af völdum haglaskota næmi tugum tonna og að hún skaðaði bæði fugla og fiska sem éti blýin í stað lítilla steinvala til að bæta meltinguna og drepist fyrir vikið.

„Engar rannsóknir sýna fram á slíkt,“ segir Guðmundur Kr. Gíslason, formaður Skotfélags Reykjavíkur.

„Þarna eru engar sendnar fjörur og því sækja landfuglar ekki á svæðið. Þarna eru bara klettar, urð og grjót,“ segir hann og tekur fram að félagið hafi bannað notkun á blýhöglum fyrir ári.

Lúther Ólason, formaður Skotreynar, segir að ávallt hafi verið farið eftir þeim reglum sem Heilbrigðiseftirlitið hafi sett varðandi notkun blýs, en vel að merkja, Álfsnesið falli ekki undir skilgreiningu á votlendissvæði og þar með friðlandi fyrir fugla.

„Staðsetning skotvallanna á Álfsnesi var ekki ákveðin út af veðursæld, fjölskrúðugu fuglalífi, blómlegu votlendi og ómenguðum jarðvegi. Þvert á móti eru á svæðinu sorphaugar með útrunninni matvöru sem er ekki hæf til manneldis, bílhræ með batteríum og einhverjar miltisbrandsgrafir ásamt öðru,“ segir Lúther.

Báðir vilja aftur á móti bæta hljóðvarnir á skotsvæðinu með mönum, svo nágrannar skotfélaganna tveggja á Kjalarnesi heyri síður hvellina, en Álfsnesið sjálft sé skilgreint iðnaðarsvæði til framtíðar.

SAXoPicture-0AA37F38-15436360.jpg

Skotsvæði á Álfsnesi.