Karl Ingi Vilbergsson héraðssaksóknari segir það liggja fyrir að sakborningar í hryðjuverkamálinu svokallaða hafi ætlað sér að fremja hryðjuverk, hins vegar sé óljóst hvenær og hvar það hafi átt að eiga sér stað, þar sem málið hafi verið á algjöru frumstigi. Því sé staðsetning og tími ótilgreint í ákæru.

Munnlegur málflutningur í málinu fór fram í dag varðandi formhlið málsins, hvort ákæruliðir varðandi meinta skipulagningu hryðjuverka séu nægilega skýrir. Sakborningarnir kröfðust þess báðir að þeim ákæruliðum sem sem varða hryðjuverk yrði vísað frá.

Karl Ingi sagði að frekar ætti að sýkna mennina heldur en að vísa málinu frá væri ákæran óskýr og benti meðal annars á að að sakborningar hafi tekið afstöðu til ákærunnar.

„Skotmark árásarinnar er aukaatriði brotsins,“ sagði Karl Ingi sem sagði rannsóknargögn málsins sýna fram á að ákvörðun um að fremja hryðjuverk hafi verið tekin, en að þau sýni ekki hvert skotmarkið var, eða hvar eða hvenær. Þá sé möguleiki á að þeir þættir hafi verið óákveðnir.

„Jón Jónsson“ og bankarán

Auk þess nefndi dæmi um bankaræningja sem hefðu undirbúið bankarán, en ættu eftir að ákveða hvenær eða hvaða bankaútibú ætti ræna. Þrátt fyrir það væri rétt að ákæra mennina.

„Sakarefnið er í raun einfalt. Þeim er gefið að sök að hafa ákveðið að fremja hryðjuverk.“ sagði hann.

Á móti tók Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars mannsins, dæmi um „Jón Jónsson“ sem væri ákærður fyrir að kýla mann, en í ákærunni kæmi ekkert meira um málið fram.

Dómari málsins spurði saksóknara hvers vegna hafi verið minnst á ákveðnar stofnanir og jafnvel ákveðna einstaklinga í fyrri úrskurðum málsins, en afhverju þeir væru ekki nefndir í ákæru.

„Þegar ákæran var smíðuð þá var mat ákæruvaldsins að tilgreina ekki þessa hópa þar sem ekki væri hægt að sýna fram á að ákæran myndi beinast að þeim nákvæmlega.“ En líkt og áður segir hafi það verið metið sem svo að ákvörðun um hryðjuverk hafi legið fyrir.

„Ákæran er óvenjuleg, enda er málið óvenjulegt,“ sagði Karl Ingi sem benti á að sjaldnast fari mál sem eru á eins miklu frumstigi og í þessu máli á borð dómstólanna.

Á Þjóðhátíð og ólíklegur til að fremja hryðjuverk helgina eftir

Sveinn Andri fullyrti að í ákæruna hafi vantað lágmarkslýsingu á þeim hryðjuverkum sem eiga að hafa verið í undirbúningi.

„Allar þær athafnir og undirbúningur, ráðagerðir um að gera hitt og þetta, voru engar undirbúnigsathafnir. Þess vegna tilgreinir ákæruvaldið þær ekki,“ segir hann og bætti við að það myndi krefjast mikils undirbúnings að framkvæma hryðjuverk.

„Ef það kæmi fram að hann ætlaði að fremja hryðjuverk á þessum stað þennan tiltekna dag gæti hann tekið til varna og sagt til dæmis að hann hefði haft önnur plön þennan dag,“ sagði Sveinn.

Hann tók sem dæmi hluta úr úrskurðum málsins þar sem fram hafði komið að mennirnir hafi ætlað sér að keyra bíl á gleðigönguna. Hefði hann verið ákærður fyrir það hefði verjandi hans til að mynda getað bent á að hann hafi verið að skemmta sér helgina áðu.

„Maðurinn er á þjóðhátíð helgina áður að skemmta sér með vinum sínum. Það passar ekki við þann sem ætlar sér að fremja hryðjuverk stuttu seinna.“