Vopnaður karlmaður er enn inni í íbúð í fjölbýlishúsi við Miðvang 41 í Hafnarfirði.

Lögreglan fékk tilkynningu um mögulega skotárás klukkan 20 mínútur í átta í morgun. Íbúi í fjölbýlishúsinu var á svölunum sínum vopnaður skotvopni og hafði skotið á bíl sem var lagt fyrir aftan verslun Nettó. Samkvæmt sjónarvottum sem Fréttablaðið ræddi við skaut maðurinn af fjórum sinnum.

Ekki er búið að rýma fjölbýlishúsið en lögregla segir í samtali við Fréttablaðið að íbúar séu ekki í hættu. Sérsveitarmenn og lögregluþjónar eru inni í blokkinni og eru að ræða við manninn. Sömuleiðis notar lögreglan dróna til að til að sjá betur inn í íbúðina líkt og má sjá á myndinni hér fyrir neðan.

Sérsveit notar dróna til að kanna svæðið.
Fréttablaðið/Anton Brink
Lögreglan notar dróna til að skoða betur inn í íbúðina. Dróninn flaug hátt og í kringum alla blokkina.
Fréttablaðið/Helena

Eigandi bílsins í skýrslutöku

Eigandi bílsins sem skotið var á í morgun er nú í skýrslutöku hjá lögreglu. Hann er ekki særður að sögn lögreglu. Aðspurður um tengsl mannanna sagðist lögreglufulltrúi ekki geta veitt upplýsingar um það.

Búið er að girða af svæðið. Íbúum er ekki hleypt inn í fjölbýlishúsið.
Fréttablaðið/Helena
Sérsveitarbíll á vettvangi.

„Ég þarf bara að fara að vinna“

Ósáttur leigubílstjóri hefur verið að bíða í klukkustund eftir að komast að bílnum sínum sem er inni á lokaða svæðinu.

Fréttablaðið sá leigubílstjórann rétta lögregluþjónum bíllykla sína og biðja þá að gjöra svo vel að koma með bílinn sinn.

„Ég nenni þessu ekki lengur, þetta er búið að vera svona síðan átta í morgun. Ég þarf bara að fara að vinna,“ sagði leigubílstjórinn.

Lögregluþjónn varð við ósk leigubílstjórans.
Fréttablaðið/Helena
Leigubílstjórinn kemst loksins í vinnuna.
Fréttablaðið/Helena