Skotland hefur nú tekið á skarið og er orðið fyrsta landið í heiminum til að bjóða upp á ókeypis tíðarvörur.

Í gærkvöld samþykkti skoska þingið(MSP) einróma, frumvarp um að tíðarvörur verði ókeypis í landinu. Með lögunum verður sveitarfélögum í landinu skylt að veita öllum þeim sem þurfa á þeim að halda, ókeypis tíðarvörur, eins og dömubindi og tíðatappa. BBC greinir frá.

Monica Lennon, þingmaður í skoska Verkamannaflokknum er á bak við frumvarpið, en hún hefur barist fyrir því að enda „tíðar fátækt" frá árinu 2016.

Hún sagði þetta vera „hagnýta og framsækna“ löggjöf sem væri enn mikilvægara að samþykkja á tímum sem þessum.

„Blæðingar stoppa ekki fyrir heimsfaraldur og vinnan við að bæta aðgengi að nauðsynlegum töppum, bindum og annarra tíðarvara hefur aldrei verið mikilvægari".

„Tíðar fátækt" á við um þá einstaklinga sem hafa lágar tekjur og eiga ekki efni á að kaupa sér viðeigandi tíðarvörur. Venjulegar blæðingar standa að meðaltali yfir í fimm daga og getur því kostað allt að 8 pund eða um 1.500 krónur á mánuði að kaupa tíðatappa og dömubindi en margar konur eiga erfitt með að standa undir kostnaðinum.

Í könnun sem náði til um 2000 kvenna í Skotlandi kom í ljós að fjórði hver nemandi í framhaldsskóla og háskóla í Skotlandi á ekki efni á að kaupa tíðarvörur.

Hér á landi samykkti Alþingi árið 2019 að lækka virðisaukaskatt á tíðarvörum úr efra þrepi niður í það neðra. Virðisaukaskattur á tíðavörur á borð við dömubindi, túrtappa og álfabikar, lækkuðu því úr 24 prósentum í 11 prósent.