Þórður Már Jónsson lögmaður skotmannsins á Egilsstöðum segir skjólstæðing sinn ekki fá nauðsynlega endurhæfingu í gæsluvarðhaldi.

„Það er ekki sérstaklega auðvelt meðan hann er í gæsluvarðhaldi. Hann þyrfti að vera í endurhæfingu en hann getur ekki fengið nauðsynlega meðferð meðan hann er lokaður inni,“ segir Þórður í samtali við Fréttablaðið.

Maðurinn sem um ræðir hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í ágúst vegna gruns um tilraun til manndráps. Hann var skotinn í kviðinn í aðgerðum lögreglu við Dalsel á Egilsstöðum og gekkst undir aðgerð á Landspítala. Hann sat í gæslu á sjúkrahúsi til að byrja með en var svo fluttur í fangelsi.

„Hann hefur hitt lækni og sálfræðing en það er ekki nóg,“ segir Þórður. Aðspurður hvort skjólstæðingur hans hafi kvartað undan þessu svarar hann játandi. „Hann fær alls ekki það sem hann þarf.“

Maðurinn skaut úr loftriffli inni á heimili barnsföður kærustu sinnar. Þegar hann kom út úr húsi skaut lögreglan hann í kviðinn.
Mynd: Gunnar Gunnarsson

Býst við að fá ákæru fyrir lok mánaðarins

Mbl.is greindi frá því að búið væri að gefa út ákæruna en að manninum hafi enn ekki verið birt ákær­an. Aðspurður hvort ákæra hafi verið gefin út svarar Þórður neitandi

„Það er ekki rétt,“ segir Þórður en hann býst við að fá ákæru í hendur fyrir 29. nóvember.

Barnaverndarlagabrot og tilraun til manndráps

Rannsókn málsins lýtur meðal annars að tilraun til manndráps, valdstjórnarbrotum, líkamsárás, hótunum og almannahættubrotum auk brota gegn vopnalögum og barnaverndarlagabrotum.

Maðurinn er sagður hafa hleypt skotum af loftriffli í íbúðarhúsi barnsföður kærustu sinnar. Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari staðfesti í samtali við Fréttablaðið að börn hafi verið í húsinu í Dalseli.