„Að standa á sama stað og pabbi stóð 1942 var mér ákaflega mikilvægt og eftirminnilegt,“ segir Hamish Johnston sem kom til Íslands nú í ágúst með skemmtiferðaskipinu MS Borealis og stoppaði meðal annars á Seyðisfirði þar sem hann stóð fyrir utan Hótel Öldu og lét smella af sér mynd á nákvæmlega sama stað og faðir hans, Doug­las Johnston, stóð.

Faðir hans kom árið 1942 með svokallaðri PQ14-skipalest sem var á leiðinni til Murmansk í Rússlandi. HMS Edinburgh og HMS Bulldog stoppuðu á Seyðisfirði í aprílmánuði en um borð í HMS Bulldog var læknir um borð téður Douglas Johnston.

Samkvæmt Hamish var faðir hans skíðagarpur og fékk leyfi og tíma til að fara í land. Hann fékk skíði lánuð frá bæjarbúa og skoðaði bæinn. Við búðina Jón G. Jónasson var svo smellt af mynd sem Hamish hefur átt og viljað lengi feta í nákvæmlega þessi spor föður síns.

Sjóleiðin til Murmansk frá Íslandi var ein hættulegasta för sem hægt var að fara í. Fara þurfti norður fyrir Noreg og þar voru Þjóðverjar með bækistöðvar fyrir kafbáta, orrustuskip og flugvélar. Siglingaleiðin var langstyst en jafnframt hættulegust og Þjóðverjum tókst að granda fjölmörgum skipum sem höfðu viðkomu hér á landi.

Skipalestin frá PQ14 komst til Murmansk en á leiðinni heim varð HMS Edinburgh fyrir tundurskeyti. Hamish segir að HMS Bulldog, þar sem faðir hans var um borð, hafi náð að sökkva nokkrum þýskum tundurspillum sem höfðu reynt að granda HMS Edinburgh, uns allt kom fyrir ekki og skipinu var grandað. Samkvæmt Wikipediu var það með nokkur tonn af gulli sem átti að fara til Englands.

Nú í ágúst komu þau Hamish og eiginkona hans Jill með MS Borealis, sem var fyrsta skemmtiferðaskipið sem sigldi með breska ferðamenn eftir Covid-faraldurinn.

Hamish segir að hann hafi vitað að gamla búðin hefði verið endurgerð sem Hótel Alda og það var tilfinningarík stund þegar hann stóð fyrir framan hótelið á sama stað og faðir hans.

„Þetta var fyrsta heimsókn okkar til Íslands. Við fórum til Reykjavíkur, Ísafjarðar og Akureyrar þar sem við sáum ótrúlega margt fallegt. En að standa þarna þar sem pabbi stóð 1942, það stóð upp úr í annars eftirminnilegri ferð. Við Jill getum ekki beðið eftir að koma aftur til að sjá meira af Íslandi.“