Sala á skotheldum skólatöskum hefur aukist um 300 prósent í Bandaríkjunum í kjölfar nýliðinna skotárása í landinu. Fyrirtæki sem selja téða bakpoka segja álíka aukningu hafa orðið eftir skotárásir undanfarinna ára.

Áhyggjufullir foreldrar flykkjast nú í búðir til að festa kaup á skólatöskunum áður en skólinn byrjar á ný á næstu vikum. Samkvæmt CNN finnst foreldrum þeir knúnir til að grípa til slíkra ráða vegna aðgerðaleysi stjórnvalda.

Ekki örugg vernd

Fyrirtækin sem framleiða töskurnar hafa sætt gagnrýni fyrir að auglýsa bakpoka sína sem skothelda þrátt fyrir að fullnægjandi próf þess efnis liggi ekki fyrir. Þá veita einhverjar af töskunum takmarkaða vernd gegn sjálfvirkum rifflum sem iðulega eru notaðir í skotárásum.

Kamala Harris, forsetaframbjóðandi Demókrata, segir að ótrúlegt verði að teljast að skotheldar skólatöskur eigi að vernda ungviði Bandaríkjanna. Hún er ein fjölmargra sem vilja uppfæra byssulöggjöf í Bandaríkjunum.