Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborg munu koma upp sérstökum skotpöllum og afmörkuðum svæðum fyrir þá sem vilja sprengja burt gamla árið á Klambratúni, Skólavörðuholti og Landakotstúni. Í tilkynningu á Facebook- síðu Lögreglunnar segir að „á þessum stöðum hefur safnast mikill mannfjöldi ár hvert og með þessu er verið að draga úr hættu á slysum af völdum skotelda.“
Skotsvæðin og pallarnir verða afmarkaðir með keilum og borðum, en ásamt þeim mun sérstakt gæslufólk sjá um að halda skotglöðum einstaklingum réttu megin við línuna þegar þeir skjóta upp og með því reyna að koma í veg fyrir að fólk fagni áramótunum á Bráðamóttökunni.
Samkvæmt óformlegum upplýsingum frá Bráðamóttöku Landspítalans eru engin skráð flugeldaslys hjá þeim enn sem komið er. Fjöldi slysanna sé mjög breytilegur ár frá ári en áramótin séu hins vegar ekki búin enn og því gætu komið upp einhver tilvik næstu daga.
Gæslufólkið á svæðinu mun þó ekki eingöngu sjá um að halda skotglöðu fólki á sínum stað heldur munu þeir einnig safna saman flugeldaleifum og koma þeim á rétta staði.
Lögreglan bendir einnig á það að bílaumferð verður lokuð á Skólavörðuholti á milli tíu og eitt í kvöld, eins og hefur verið undanfarin ár.