Skotfélag Reykjavíkur, annað tveggja félaga sem eru með skotsvæði á norðanverðu Álfsnesi, bannaði fyrir helgi notkun á blýhaglaskotum á svæði sínu.

Stjórn félagsins kynnti ákvörðunina á vefsíðu þess á föstudaginn eftir að Fréttablaðið greindi frá innihaldi væntanlegrar skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um blý- og hljóðmengun frá skotsvæðunum. „Stjórn félagsins hefur ákveðið að algjört blýbann verði á haglavöllunum á Álfsnesi, þar til annað verður ákveðið,“ sagði stjórnin.

Af þeim haglsýnum, sem tekin voru upp af jörðinni og sem Heilbrigðiseftirlitið lét greina, reyndust 47 prósent vera úr blýi en bæði eftirlitið sjálft og skotfélögin tvö hafa áður sagt notkun blýhagla á Álfsnesi vera nánast enga.

Stjórn Skotfélags Reykjavíkur segir í færslu sinni að undanfarin ár hafi haglaskot með stálhöglum verið langmest notuð af þeirri meginástæðu að þau séu ódýrari en blýskot.

„Fyrstu árin voru blýskot notuð en svo breyttist það með tímanum og síðustu átta til níu árin hafa stálskotin verið ráðandi enda sýna niðurstöður rannsókna Heilbrigðiseftirlitsins að sú sé raunin á okkar svæði,“ segir stjórn Skotfélagsins.

„Í starfsleyfi okkar er leyfilegt að nota blýskot en mælst er til þess að notast sé við stálskot eða önnur vistvænni skot en blý. Við vonumst til þess að við getum með þessum hætti komið til móts við gagnrýni á notkun blýskota,“ segir stjórnin.

Þrátt fyrir þetta virðist sem stjórnarmönnum Skotfélagsins finnist sem litið sé langt yfir skammt í leit að mengunarvöldum á Álfsnesi með því á benda á skotæfingasvæðin. „Spurning er aftur á móti hvort mengun á okkar svæði sé mikil samanborin við nágranna okkar í Sorpu en stærsta urðunarsvæði landsins er í nágrenninu.“