Maðurinn, Hallur Gunnar Erlingsson, sem er á sextugsaldri situr í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rennur út í dag. Ekki liggur fyrir hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum, að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur, varahéraðssaksóknara.

Líkt og fram hefur komið er málið rannsakað sem brot gegn valdstjórninni. Aðspurð segir Kolbrún að skotárásirnar séu ekki rannsakaðar sem hryðjuverk þar sem ekkert hafi komið fram við rannsókn þess um að slíkt athæfi hafi átt sér stað. Rannsóknir á brotum gegn valdstjórninni eru á borði héraðssaksóknara en ekki lögreglu.

Brot gegn valdstjórninni getur varðað sex ára fangelsi

Samkvæmt 106. gr. almennra hegningarlaga, getur brot gegn valdstjórninni varðað sex ára fangelsi en brotið tekur til ofbeldis eða hótana um slíkt gegn opinberum starfsmanni sem er að gegna skyldustörfum eða vegna þeirra. Það varðar einnig sömu refsingu að reyna að koma í veg fyrir framkvæmd slíkra starfa eða neyða starfsmanninn til að framkvæma einhverja embættisathöfn eða sýslan.

Í 100. gr. sömu laga er fjallað um hryðjuverk og eru viðurlög við slíku broti mun þyngri en við valdstjórnarbroti, allt að ævilangt fangelsi. Hryðjuverk eru skilgreind í lögunum sem brot sem framin með það fyrir augum að valda verulegum ótta meðal almennings eða þvinga með ólögmætum hætti stjórnvöld, hvort sem er íslensk eða erlend, eða alþjóðastofnun „til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar.“

Hallur skráður eigandi skotvopna

Sakborningurinn í málinu er fyrrverandi lögreglumaður. Embætti héraðssaksóknara hefur ekki upplýst af hverju grunur beinist að honum. Hallur er skráður eigandi skotvopna en ekki liggur fyrir hvort lögregla hafi lagt hald á slík vopn er hann var handtekinn

Hallur er eini sakborningurinn í málinu en manni sem handtekinn var í síðustu viku var sleppt um svipað leyti og Hallur var handtekinn. Lögmaður fyrri mannsins hefur óskað eftir því að haldi sem lagt var á eignir hans eftir húsleit verði aflétt, en þar er meðal annars um að ræða tvo 22. kalíbera riffla. Talið er að slíkum vopnum hafi verið beitt við skotárásirnar tvær. Ekki hefur enn verið orðið við kröfu lögmannsins.