Mál gegn fyrrverandi lögreglumanni sem sat í gæsluvarðhaldi snemma á árinu, grunaður um að hafa skotið úr byssu á bíl borgarstjórans í Reykjavík í janúar og á skrifstofur Samfylkingarinnar nokkru fyrr, hefur verið fellt niður hjá embætti héraðssaksóknara.

Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Byggir ákvörðun um niðurfellingu málsins á ákvæði sakamálalaga sem kveður á um að lögregla geti hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram.

Samkvæmt heimildum blaðsins var hinn grunaði handtekinn eftir að myndum úr eftirlitsmyndavélum í nærliggjandi götum var aflað.

Hvorki þær né önnur sönnunargögn í málinu eru talin duga til sakfellis en maðurinn hefur ávallt neitað sök.

Niðurfelling málsins tekur þó eingöngu til meintra hegningarlagabrota, það er rannsókn á ofbeldi eða hótunum gegn opinberum starfsmanni, hættubroti og eignaspjöllum, en ekki til meintra brota mannsins á vopnalögum, þar á meðal um meðferð og innflutning vopna og skotvopnaburð á almannafæri.