Talið er að minnsta kosti einn sé látinn og nokkrir særðir eftir að maður hóf skot­á­rás í spor­vagni í hollensku borginni Utrecht í morgun. Búið er að girða af torg nærri spor­vagns­stöðinni í vestur­hluta borgarinnar. Mikill viðbúnaður er á svæðinu.

Byssu­maðurinn er sagður ganga laus en engar handtökur hafa farið fram. Samkvæmt upplýsingum BBC lét maðurinn til skarar skríða klukkan 09.45 að ís­lenskum tíma, nærri 24. októ­ber-torgi í borginni.

Upplýsingar um slasaða halda áfram að berast fjölmiðlum en samkvæmt nýjustu upplýsingum breska ríkisútvarpsins er talið að að minnsta kosti einn sé látinn í árásinni og nokkrir slasaðir. Lögreglan rannsakar hvort að mögulega sé um hryðjuverk að ræða, að því er kemur fram í frétt BBC. 

„Maðurinn hóf að skjóta tryllingslega,“ hefur hollenski miðillinn NU.nl eftir sjónar­votti.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur hvatt Íslendinga sem staddir eru í borginni til að hafa samband ef þeir þurfa á aðstoð að halda. 

Aðrir eru hvattir til að láta aðstandendur vita eða gera grein fyrir sér á samfélagsmiðlum. Þá er Íslendingum á vettvangi bent á að virða lokanir og tilmæli yfirvalda og fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum.

Fréttin hefur verið uppfærð.