Karen Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar segir aðkomuna að skrifstofu Samfylkingarinnar í morgun hafa verið óskemmtilega en svo virðist sem óprúttnir aðilar hafi skotið á rúður á húsnæði flokksins á jarðhæði í Sóltúni 26 í gærkvöldi eða nótt. Karen segir skemmdarverk sem þessi ekki hafa verið framin á húsnæði flokksins áður.

RÚV greindi fyrst frá því í morgun að tæknideild lögreglunnar rannsakaði nú göt, sem virðast vera eftir byssukúlur, í gluggum í húsnæði flokksins í Sóltúni 26 í Reykjavík. Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið.

Lögregla fer nú með rannsókn málsins og get ég ekki tjáð mig frekar um það,“ segir Karen í samtali við Fréttablaðið. Þetta kom bara í ljós í morgun þegar við mættum og þetta er kannski ekki það fyrsta sem manni dettur í hug. Það var glerfall yfir gólfinu og við byrjuð að sópa það upp. Svo kom í ljós frekari skotsár við frekari athugun og þegar aðeins tók að birta,“ segir Karen.

Starfsfólk flokksins varð vart við skemmdirnar er það mætti til vinnu en fundarhöld voru á skrifstofunni til um klukkan átta í gærkvöldi og húsið því mannlaust í rúma tólf tíma er skemmdirnar komu í ljós. Starfsemi skrifstofunnar fer nú í öðru húsnæði.


