Í dag fer fram í þriðja sinn mál­þingið No Woman Alone í sam­vinnu við Reykja­vík Film Festi­val. Mál­þingið er skipu­lagt af lista­konunni Nöru Wal­ker sem var um tíma bú­sett á Ís­landi og dæmd til fangelsis­vistar eftir að hún beit tunguna af fyrr­verandi kærastanum sínum sem beitti hana grófu of­beldi.

„Í ár er lögð á­hersla á frá­sagnir kvenna með því að leggja fram kenningar sem eru and­stæðar ríkjandi við­horfum feðra­veldisins, og þannig, getum við hjálpað al­menningi að nota nýtt tungu­mál og orð­ræðu til að skilja að­stæður þar sem kyn­bundið of­beldi og á­reitni á sér stað,“ segir Wal­ker í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á mál­þinginu sem hefst klukkan 15 og verður hægt að horfa á hér að neðan í beinni munu fjórar konur taka til máls. Rit­höfundurinn Shanta­ye Brown, lög­maðurinn Claudia A Wil­son, doktors­neminn Katrín Ólafs­dóttir og rit­höfundurinn Þór­dís Elva Þor­valds­dóttir. Auk þeirra mun for­maður Sam­taka kvenna af er­lendum upp­runa og for­stöðu­kona Fjöl­menningar­seturs, Nicho­le Leigh Mo­sty, stýra um­ræðunum. Nico­le mun einnig, sem upp­hafs­kona #met­oo byltingarinnar á ís­landi fyrir hönd er­lendra kvenna, fara yfir stöðu mála hvað það varðar.

Nara Walker vill breyta orðræðunni um kynbundið ofbeldi og áreitni.
Fréttablaðið/Valli

Hjálpar mikið að þýða vefsíður

Spurð hver staðan er núna segir Nico­le að hún hafi ekki breyst mikið þegar kemur að stuðning sem er í boði fyrir konur af er­lendum upp­runa á Ís­landi, jafn­vel þótt að í dag, eins og áður, sé hátt hlut­fall þeirra sem leita til Kvenna­at­hvarfsins konur af er­lendum upp­runa.

„Við vitum að það er að­eins vegna þess að Kvenna­at­hvarfið er eina raun­hæfa lausnin sem er í boði fyrir þær vegna öryggis og peninga,“ segir Nico­le.

Hún segir að það hafi þó verið ein­hver þróun síðustu ár og nefnir að heima­síða 112 hafi verið þýdd á bæði ensku og pólsku en að til dæmis sé heima­síða Bjarkar­hlíðar að­eins á ís­lensku en þangað getur fólk leitað ef það hefur orðið fyrir of­beldi.

„Upp­lýsingar á heima­síðu Neyðar­mót­tökunnar eru líka bara á ís­lensku. Þetta eru mjög mikil­væg úr­ræði sem konur af er­lendum upp­runa ættu að hafa skilning á. Þýðing á vef­síðum hjálpar mjög mikið,“ segir hún.

Nico­le bendir á að þær kröfur sem þær hafi upp­runa­lega sett fram hafi snúið að því að ráðast að rót vandans og að því sem gerir stöðu kvenna af er­lendum upp­runa oft erfiðari og við­kvæmari en annarra kvenna. Eins og for­dómar og mis­munun og að hafa ekki sömu mögu­leika á vinnu­markaði.

Nico­le segir að sam­tökin hafi fengið styrki til að styðja fé­lags­lega við konur en hafi ekki það mikinn pening til að ráða til sín starfs­fólk sem gæti, til dæmis, að­stoðað konur við að komast úr of­beldis­fullum að­stæðum og segir að hún viti ekki til þess að sér­stak­lega hafi verið búin til slík úr­ræði fyrir konur af er­lendum upp­runa.

Hægt er að fylgjast með við­burðinum klukkan 15 þegar hann hefst hér að neðan.