Í dag fer fram í þriðja sinn málþingið No Woman Alone í samvinnu við Reykjavík Film Festival. Málþingið er skipulagt af listakonunni Nöru Walker sem var um tíma búsett á Íslandi og dæmd til fangelsisvistar eftir að hún beit tunguna af fyrrverandi kærastanum sínum sem beitti hana grófu ofbeldi.
„Í ár er lögð áhersla á frásagnir kvenna með því að leggja fram kenningar sem eru andstæðar ríkjandi viðhorfum feðraveldisins, og þannig, getum við hjálpað almenningi að nota nýtt tungumál og orðræðu til að skilja aðstæður þar sem kynbundið ofbeldi og áreitni á sér stað,“ segir Walker í samtali við Fréttablaðið.
Á málþinginu sem hefst klukkan 15 og verður hægt að horfa á hér að neðan í beinni munu fjórar konur taka til máls. Rithöfundurinn Shantaye Brown, lögmaðurinn Claudia A Wilson, doktorsneminn Katrín Ólafsdóttir og rithöfundurinn Þórdís Elva Þorvaldsdóttir. Auk þeirra mun formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna og forstöðukona Fjölmenningarseturs, Nichole Leigh Mosty, stýra umræðunum. Nicole mun einnig, sem upphafskona #metoo byltingarinnar á íslandi fyrir hönd erlendra kvenna, fara yfir stöðu mála hvað það varðar.

Hjálpar mikið að þýða vefsíður
Spurð hver staðan er núna segir Nicole að hún hafi ekki breyst mikið þegar kemur að stuðning sem er í boði fyrir konur af erlendum uppruna á Íslandi, jafnvel þótt að í dag, eins og áður, sé hátt hlutfall þeirra sem leita til Kvennaathvarfsins konur af erlendum uppruna.
„Við vitum að það er aðeins vegna þess að Kvennaathvarfið er eina raunhæfa lausnin sem er í boði fyrir þær vegna öryggis og peninga,“ segir Nicole.
Hún segir að það hafi þó verið einhver þróun síðustu ár og nefnir að heimasíða 112 hafi verið þýdd á bæði ensku og pólsku en að til dæmis sé heimasíða Bjarkarhlíðar aðeins á íslensku en þangað getur fólk leitað ef það hefur orðið fyrir ofbeldi.
„Upplýsingar á heimasíðu Neyðarmóttökunnar eru líka bara á íslensku. Þetta eru mjög mikilvæg úrræði sem konur af erlendum uppruna ættu að hafa skilning á. Þýðing á vefsíðum hjálpar mjög mikið,“ segir hún.
Nicole bendir á að þær kröfur sem þær hafi upprunalega sett fram hafi snúið að því að ráðast að rót vandans og að því sem gerir stöðu kvenna af erlendum uppruna oft erfiðari og viðkvæmari en annarra kvenna. Eins og fordómar og mismunun og að hafa ekki sömu möguleika á vinnumarkaði.
Nicole segir að samtökin hafi fengið styrki til að styðja félagslega við konur en hafi ekki það mikinn pening til að ráða til sín starfsfólk sem gæti, til dæmis, aðstoðað konur við að komast úr ofbeldisfullum aðstæðum og segir að hún viti ekki til þess að sérstaklega hafi verið búin til slík úrræði fyrir konur af erlendum uppruna.
Hægt er að fylgjast með viðburðinum klukkan 15 þegar hann hefst hér að neðan.