Gjörgæslurýmum hefur fækkað úr 18 niður í 14 frá árinu 2009 vegna skorts á sérhæfðu gjörgæslustarfsfólki, einkum hjúkrunarfræðingum.

Þetta kemur fram í svari Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, framkvæmdastjóra skrifstofu forstjóra Landspítalans, við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Hjúkrunarfræðingar með þessa sérhæfingu eru afar eftirsóttir á heimsvísu og er gríðarleg samkeppni um þessa hópa. Hafi hjúkrunarfræðingur ekki sérmenntun í gjörgæsluhjúkrun má gera ráð fyrir 6 mánuðum til 2 ára í starfi áður en viðkomandi nýtist að fullu í hina flóknu hjúkrun gjörgæslusjúklinga,“ segir Anna Sigrún.

Hún segir Landspítala stefna að því að fjölga gjörgæslurýmum eftir því sem kostur sé og mönnun hafi verið styrkt til þess.

„Einnig eru opnun hágæslurýma í farvatninu og er gert ráð fyrir opnun þeirra í næsta mánuði. Slíka þjónustu geta sjúklingar sem ekki geta farið á legudeildir til eftirlits en þurfa ekki algera gjörgæslu,“ segir Anna Sigrún.

Fleiri rými ekki í boði vegna manneklu

Farsóttanefnd Landspítalans sendi frá sér fréttatilkynningu á þriðjudaginn síðastliðinn þar sem farið var yfir muninn á Covid-19 faraldrinum og svínaflensunni fyrir 12 árum.

Þar kom meðal annars fram að árið 2009 hafi verið ríflega 900 rúm á Landspítala og nú séu rúmin 640. Aðspurð um ástæður þessa segir Anna Sigrún gríðarlegar breytingar í starfsemi spítalans á þeim áratugi sem liðinn sé frá faraldri svínaflensunnar.

„Þannig má nefna að hlutfall dagdeildaaðgerða hefur vaxið úr tæplega 30 prósent í ríflega 60 prósent. Þetta merkir að aðgerðir sem áður kröfðust innlagnar eru núna gerðar án innlagnar. Því hefur dregið úr framboði rúma, en dagdeildarþjónusta aukist á móti,“ segir hún og bendir á að talan 900 vísi bæði til þeirra rýma sem voru í notkun árið 2009 auk þeirra rýma sem unnt hefði verið að opna ef þörf hefði verið á.

„Nú, árið 2021, er ekki unnt að opna fleiri rými en eru þegar opin á spítalanum og ræðst það af manneklu, einkum hjúkrunarfræðinga en einnig sjúkraliða.“

Anna Sigrún segir að verið sé að vinna að fjölgun starfsfólks og opnun rýma. Þá sé meðal annars gert sé ráð opnun fleiri rýma á Landakoti í þessum mánuði.

Anna Sigrún segir skort á hjúkrunarfræðingum alvarlegt vandamál sem nánast allar þjóðir heims glíma við. Það sé mat WHO að í heiminum starfi nú um 28 milljónir hjúkrunarfræðinga en það vanti sex milljónir til starfa.