Bjarni Harðarson, eigandi Bókaútgáfunnar Sæmundar, þarf að fresta útgáfu tíu bóka sem áttu að koma út í komandi jólabókaflóði vegna pappírsskorts erlendis.

„Maður sér að jólabókaflóðið, það verður seinna á ferðinni heldur en venjulega og það gæti líka orðið minna að þessu sinni,“ segir Bjarni.

Sumar bækurnar frestast um nokkra mánuði en útgáfur flestra munu hins vegar færast aftur um eitt ár að sögn Bjarna. Bókaútgefandinn segir að um sé að ræða afleidd áhrif vegna Covid-19 og sam­dráttar á pappírs­fram­leiðslu.

Þá hafi töfin sem myndaðist þegar flutninga­skipið Ever Given festist í Súes­skurði haft þau á­hrif að margir evrópskir út­gef­endur hafi hætt að prenta bækur sínar í Kína. Bjarni hefur þó ekki á­hyggjur af því að þetta muni hafa á­hrif á fjár­hags­stöðuna enda er hann með mörg önnur járn í eldinum.

„Þetta er svo­lítið merki­legt að rekast allt í einu á það að ein­hverjir at­burðir í Kína og Súes­skurðinum eru farnir að hafa á­hrif á rekstur á Sel­fossi. Það er það sem er kannski skondnast í þessu,“ segir hann.

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, hefur aftur á móti ekki trú á því að pappírsskortur erlendis og tafir í prentsmiðjum muni hafa teljandi áhrif á jólabókaflóðið í ár.

„Þvert á móti sýnist mér bara skráning í Bókatíðindi ganga nokkuð vel og hljóðið í útgefendum vera almennt mjög gott,“ segir Heiðar Ingi um stöðu mála hjá bókaútgefendum í aðdragana mikils annatíma hjá þeim.