Spítalar í brasilísku borginni Manaus eru yfir­fullir af sjúk­lingum að glíma við CO­VID-19. Þá er skortur öndunar­vélum og starfs­fólk er sagt upp­gefið. Þetta kemur fram í frétt BBC en kórónu­veiru­smit í Amazon-héraði í Brasilíu hafa aukist til muna á síðustu vikum.

Sam­kvæmt heil­brigðis­starfs­fólki í héraðinu eiga fjöl­margir eftir að deyja einfaldlega vegna skorts á lækningatækjum og starfsfólki. Alls hafa 205.000 manns látist af völdum veirunnar í Brasilíu sem er með næst­hæstu dánar­tíðnina á eftir Banda­ríkjunum.

Fjöl­margir létust í Amazon-héraðinu í fyrstu bylgju far­aldursins og fer smitum fjölgandi nú að nýju. Yfir­völd hafa lýst yfir neyðar­á­standi og er búið að flytja kælda gáma fyrir utan spítalana í Manaus til þess að geta geymt lík þar sem þeir eru yfir­fullir.

Sam­kvæmt AFP frétta­veitunni er það mikill skortur á öndunar­vélum í héraðinu að líkja mætti sumum heil­brigðis­stofnunum við „kæfingar-klefa“ fyrir sjúk­linga.

Karlmaður féll í grát fyrir utan de Agosto spítalann í Manaus í gær.
Ljósmynd/AFP

Halda sjúklingum á lífi með handafli

Í héraðs­dag­blaðinu Folha de Sao Pau­lo er sagt frá því að heilbrigðisstarfsmenn séu að hjálpa sjúk­lingum við að ná andanum með hand­afli. Ríkis­stjóri héraðsins, Wil­son Lima, hefur sett á út­göngu­bann sem tekur gildi í dag til þess að reyna stöðva út­breiðslu veirunnar.

Marcellus Campelo, heil­brigðis­ráð­herra héraðsins, segir í sam­tali við BBC að þörf er á þre­falt fleiri öndunar­vélum og óskaði eftir að­stoð frá yfir­völdum.

Vara­for­seti Brasilíu deildi í gær­kvöldi myndum a Twitter af flug­hernum að flytja lækninga­tæki og birgðir til héraðsins.

Sam­kvæmt heil­brigðis­yfir­völdum í Brasilíu mun flug­herinn einnig flytja fjölda sjúk­linga á aðra spítala í Brasilíu til að minnka á­lagið.

Brasilíska afbrigðið áhyggjuefni

Á­hyggjur hafa hins vegar verið að aukast meðal sér­fræðinga þar sem nýtt af­brigði af veirunni greindist í fjöl­mörgum japönskum ferða­mönnum sem höfðu verið í Amazon-héraðinu.

Feli­pe Na­ve­ca, að­stoðar­for­stjóri Oswaldo Cruz-stofnunarinnar, segir í sam­tali við BBC að nýja af­brigðið í Brasilíu er al­gjör­lega ó­skylt breska og suður afríska af­brigðinu.

Brasilíska af­brigðið er sagt meira smitandi en önnur af­brigði veirunnar og segir Na­ve­ca það vera mikið á­hyggju­efni.

Sam­kvæmt Na­ve­ca hefur ekki enn komið í ljós hvort bólu­efni gagn­vart veirunni muni hafa minni á­hrif á nýja af­brigðið en unnið sé að því að rann­saka það um þessar mundir.

Fjölmargir hafa látist af völdum COVID-19 í Manaus á síðustu vikum.
Ljósmynd/AFP