Samkvæmt frétt Reuters um málið er hluti vandamálsins aðgerðir Trump-stjórnarinnar gegn framleiðslu í Kína, en önnur lönd eins og Taívan hafa reynt að bregðast við vandanum. TSMC er einn stærsti framleiðandi hálfleiðara í heiminum, sem notaðir eru í tölvukubba og örflögur, og þar á bæ segjast menn vera tvo mánuði frá að ná að bregðast við eftirspurninni. Það mun þó ekki þýða að enginn skortur verði á tölvukubbum í sumar því að birgðalínan er löng og flókin. Venjulega tekur það allt að átta mánuði fyrir framleiðsluna að komast til kaupenda sinna. Er vandamálið farið að ná til fleiri framleiðsluaðila eins og framleiðenda raftækja.

Í samtali við þýskt dagblað sagði Herbert Diess, framkvæmdarstjóri Volkswagen samsteypunnar, að fyrirtækið ætli að hanna og þróa sína eigin tölvukubba fyrir sjálfkeyrandi ökutæki. Mun þá hugbúnaðurinn einnig verða þróaður af Volkswagen þó að framleiðsla þeirra gæti farið fram hjá aðilum sem sérhæfa sig í slíkri framleiðslu. Er þessi áætlun Volkswagen komin til vegna samkeppni frá Tesla sem notast við sérhannaða tölvukubba sem aftur gefur þeim möguleika á að þróa breytingar hraðar en aðrir keppinautar. Einnig gæti hugsanleg samkeppni frá Apple spilað inn í þessar áætlanir. Daimler skrifaði nýlega undir samning við Nvidiaframleiðandann um þróun og smíði tölvukubba og hugbúnaðar fyrir Mercedes-Benz.