Alcantara áklæði var fundið upp snemma á áttunda áratug síðustu aldar og hefur verið notað æ síðan í síauknu mæli í áklæði í bíla. Nú er svo komið að alcantara áklæði er orðið svo vinsælt í bíliðnaðinum að skortur er á efninu. Í upphafi voru það aðallega framleiðendur dýrari bíla sem notuðu alcantara áklæði í bíla sína og þá helst í sæti þeirra. Það hefur breyst og framleiðendur ódýrari bíla nota nú mikið af alcantara, svo sem Volkswagen, Ford og Renault. Nú er alcantara áklæði að auki notað víðar í bílum en í sætum, svo sem í mælaborð, hurðir, í skiptistangir og stýri. Einnig er Alcantara mikið notað í flugvélar og snekkjur. Þess má geta að Ferrari notar mikið Alcantara áklæði, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að það er svo létt, en flestir bílaframleiðendur keppast við að gera bíla sína eins létta og kostur er.

Alcantara áklæði er einungis framleitt af fyrirtækinu Alcantara S.p.A. sem er ítalskt fyrirtæki staðsett í Mílanó og hefur það ekki undan að afgreiða pantanir um þessar mundir. Því ætlar Alcantara S.p.A. að tvöfalda verksmiðju sína og ætlar að fjárfesta fyrir 36,5 milljarða króna til að gera það að veruleika. Það ætti að vera óhætt miðað við þá eftirspurn sem nú er í efnið góða og telja forsvarsmenn fyrirtækisins að eftirspurnin eigi enn eftir að aukast stórum skrefum eftir því sem fleiri framleiðendur ódýrra bíla auka notkun sína á efninu. Alcantara hefur þá kosti umfram leður að vera helmingi léttara, ennþá sterkara efni, er með meira viðnám og því ekki eins sleipt, andar betur og folk svitnar minna í því og er ekki eins heitt á sumrin og ekki eins kalt á veturna. Auk þess þarf ekki að drepa neina skepnu til framleiðslu þess og til þess hugsa margir.