Dr. Hrafn Óli Sigurðsson skorar hann á íslensk heilbrigðisyfirvöld að losa um höft á ávísun Buprenorphine(Suboxone) og byrja strax á meðferð á slysadeild og með eftirfylgni á heilsugæslunni innan nokkurra daga. Þetta segir hann í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Dr. Hrafn skrifaði greinina í kjölfar viðtals við Sigfús Már Dagbjartarson í helgarblaði Fréttablaðsins. Þar lýsti Sigfús reynslu sinni af ópíóðafíkn og fráhvarfslyfinu Subaxone, sem hann kaupir á svarta markaðnum dýrum dómum.
Dr. Hrafn Óli Sigurðsson er sérfræðingur í geðhjúkrun á CATCH New York City Health + Hospitals Lincoln. Í aðsendri grein segir hann að hér sé ófremdarástand og engin ástæða til að hafa stefnu sem takmarkar aðgang að meðferð á þennan hátt.
Hann segir Buprenorphine/Naloxone (Suboxone) sé nú viðurkennt sem fyrsta viðhaldslyfjameðferð við ópíóðafíkn.
„Þetta lyf er öruggt í notkun og fyrri takmörkunum við ávísun þess í Bandaríkjunum hefur nú verið aflétt innan ákveðinna marka til að auka aðgengi að meðferð. Vonin er sú að með snöggum viðbrögðum muni nást að spyrna við þessum faraldri ótímabærra dauðsfalla af völdum ópíóða,“ segir hann í greininni.
Þá segir hann að auðvitað eru sumir sem þurfa á innlögn að halda en margir geta hafið meðferð á göngudeild.
„Það er ekki ásættanlegt að fólk, notendurnir sjálfir og aðstandendur þeirra, kveljist án nokkurra úrræða meðan það bíður vikum eða mánuðum saman eftir innlögn á Vog þegar árangursrík meðferðarúrræði á göngudeild eru til,“ segir hann.
Greinina í heild má lesa hér.