Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga segir að fólk verði að átta sig á því að það séu manneskjur í fangelsum sem eiga fjölskyldur. Í dag sendi Afstaða frá sér áskorun til dómsmálaráðherra um að veita föngum desemberuppbót til þess að gera jólin bærilegri fyrir fjölskyldur þeirra.
„Fangar fá ekkert frí frá því að gleðja fjölskylduna sína og fangar þurfa að finna leið til þess að gera það. Það er frekar erfitt innan veggja og það eru margar ástæður fyrir því. En innan fangelsisins eru takmarkaðar leiðir til þess að þéna fé, bæði er vinna að skornum skammti og það er illa greitt fyrir hana. Fangar verða því að forgangsraða og þurfa að velja á milli, til dæmis hvort þeir fari til tannlæknis eða kaupi gjafir handa fjölskyldunni sinni,“ segir Guðmundur.
Í áskoruninni til dómsmálaráðherra er Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hvattur til þess að beita sér í þágu betrunar til þess að gera jólin bærilegri fyrir börn og aðra aðstandendur fanga. Þá er einnig skorað á fangelsisyfirvöld að hækka dagpeninga , fæðisfé og þóknanir fanga frá áramótum 2023.
Guðmundur segir að Afstaða hafi fengið mikið af símtölum frá föngum sem hafa áhyggjur af jólunum.
„Fangar líka gleðja fjölskylduna sína um jólin. Þess vegna ákváðum við að birta þessa áskorun,“ segir Guðmundur og bætir við að föngum finnst eins og þeir séu að gleymast í umræðunni, en áður hefur verið fjallað um svipaðar tillögur fyrir aðra hópa samfélagsins.
„Fangar fá ekki desemberuppbót og langflestir þeirra sem afplána á Litla-Hrauni eru atvinnulausir og fá þar af leiðandi enga auka þóknun umfram dagpeninga og fæðisfé. Atvinnuleysið er ekki þeim að kenna. Það er enga vinnu að hafa. Þessir menn geta ekki glatt börn sín með smáræði um jólin,“ segir Guðmundur og bendir á að dagpeningar fanga hafa ekki hækkað í sextán ár.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur tilkynnt að hann ætli að bregðast við erfiðri stöðu innan fangelsisins með auknu fjármagni. Guðmundur segir að ekkert fjármagn muni fara til fangana sjálfra.
„Þetta er eingöngu fjármagn í að viðhalda sama kerfi og sama rekstri og hefur verið. Þess vegna er ekki hægt að búast við neinum breytingum, aukningu á fangavörðum eða starfsfólki, eða neinu sem hægt er að gera til að auka endurhæfingu fanga. Þetta er eingöngu peningur til þess að viðhalda sama kerfi,“ segir Guðmundur.