Skírnir Garðarsson, fyrrverandi prestur, krefst þess að Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, beri vitni við aðalmeðferð máls sem hann hefur höfðað gegn Biskupsstofu og biskupi.

Skírni var vikið frá störfum sem héraðspresti síðasta vor vegna brots á starfs- og siðareglum kirkjunnar eftir að hann greindi fjölmiðli frá samskiptum sínum við sóknarbarn sem handtekið var grunað um að starfa undir fölsku flaggi í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.

Leitaðist eftir því að fá að koma aftur til starfa

Áður en til málshöfðunarinnar kom leitaðist Skírnir eftir því að fá að koma aftur til starfa, þetta er í annað sinn sem hann missir starf sitt hjá kirkjunni vegna trúnaðarbrota. Agnes varð ekki við því þrátt fyrir að hann hefði lýst iðrun vegna málsins, sem hann taldi byggt á misskilningi í samskiptum við blaðamann.

Í fyrirtöku í málinu í gær var kveðinn upp úrskurður og fallist á kröfu Skírnis um að fá að leiða Elli­sif Tinnu Víðisdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra kirkjuráðs, og Arnhildi Valgarðsdóttur, fyrrverandi organista, sem vitni í málinu.

Þá lét lögmaður Skírnis, Sigurður Kári Kristjánsson, bóka að skorað væri á Agnesi biskup að mæta í dóm og gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins í febrúar.