Bæjarráð Hornafjarðar deilir áhyggjum Félags eldri Hornfirðinga vegna seinagangs við nýbyggingu við hjúkrunarheimilið Skjólgarð.

Félagið skorar á Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og bæjarstjórnina að ljúka tafarlaust útboðsferli og hefja framkvæmdir.

Bæjarráðið vill skýringar á töfunum frá Framkvæmdasýslu ríkisins.

Lengi hefur staðið til að bæta aðstöðuna á Skjólgarði. Þar eru um 30 íbúar. Fá aðeins tveir þeirra eigið herbergi. Aðrir búa við þröngan kost og geta ekki tekið á móti ættingjum og vinum. Þá hefur enginn sér salerni né sturtuaðstöðu.