„Í yfirlýsingu útvarpsstjórans og fréttastjórans í dag er því haldið fram að skýrsla Verðlagsstofu skiptaverðs sé raunverulega til. Af því tilefni skorar Samherji á Ríkisútvarpið að birta skýrsluna í heild sinni.“

Svo segir í yfirlýsingu sem birt var á vef Samherja nú síðdegis. Tilefnið er viðbrögð útvarpsstjóra og fréttastjóra RÚV vegna þáttar Samherja um Seðlabankamálið svokallaða. Hafa forsvarsmenn Samherja sakað RÚV og Helga Seljan fréttamann um að hafa falsað gögn við gerð Kastljósþáttar árið 2012.

Í yfirlýsingu Samherja kemur fram að í yfirlýsingu útvarpsstjóra og fréttastjóra RÚV sé ekki tekið efnislega á meginfullyrðingunni í þætti Samherja um að skýrslan sem RÚV byggði sinn málarekstur á hafi aldrei verið til.

„Hins vegar er yfirlýsingin full af stóryrðum þar sem Samherja er brigslað um annarlegar hvatir og óeðlileg vinnubrögð nú þegar fyrirtækið ber loks hönd fyrir höfuð sér eftir rangar ásakanir Ríkisútvarpsins um margra ára skeið. Félaginu er borið á brýn að byggja á „tilhæfulausum ásökunum“ rætt er um að „stórfyrirtæki leggi í persónulega herferð gegn blaðamanni með áratuga reynslu“ í þeim „eina tilgangi að skaða mannorð fréttamanns“ og að um sé að ræða „kerfisbundna atlögu gegn fréttamiðlum”,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir Samherji að við vinnslu umrædds þáttar árið 2012 hafi Samherja ekki verið gefinn kostur á að bregðast við þeim upplýsingum sem þátturinn var sagður byggja á. Skorar Samherji á RÚV að birta skýrsluna.

Þáttur Samherja hefur vakið hörð viðbrögð og hefur Félag fréttamanna til dæmis gagnrýnt fyrirtækið harðlega. Í yfirlýsingu sem félagið birti í dag sagði meðal annars:

„Það er á­hyggju­efni að for­svars­menn stór­fyrir­tækja, sem fjöl­miðlar fjalla eðli­lega um, skuli velja að reyna að gera ein­staka fjöl­miðla­menn tor­tryggi­lega í stað þess að svara efnis­lega þeim at­riðum sem fram hafa komið í um­fjöllun fjöl­miðla um starf­semi fyrir­tækisins. Það vekur jafn­framt á­hyggjur að fyrir­tækið skuli birta slíkar á­virðingar í gervi heimilda­þáttar og grafa þannig undan fjöl­miðlum al­mennt.“