Samtökin ‘78 skora á stjórnvöld að halda áfram að vinna að réttarbótum fyrir hinsegin fólk með regnbogakort ILGA-Europe sem leiðarvísi. Útgáfa Regnbogakorts ILGA-Europe 2021 sýnir að Ísland stendur í stað milli ára með 54 prósent atriða uppfyllt.
ILGA-Europe, sem eru Evrópusamtök hinsegin hreyfinga, hafa frá árinu 2009 gefið út regnbogakort sitt sem ber saman lagaleg réttindi hinsegin fólks milli ríkja.
Í yfirlýsingu Samtaka ´78 segir að þau sjái fyrir sér að Ísland sitji í efsta sæti listans eftir fimm ár en til þess að það geti orðið af því þurfi bæði vilja og atbeini stjórnvalda.
„Lög um kynrænt sjálfræði marka tímamót í réttindum trans og intersex fólks en betur má ef duga skal,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78, í yfirlýsingunni.
Þau segja að næst á ætti að beina sjónum að baráttu þeirra fyrir heildstæðri löggjöf sem verndar hinsegin fólk gegn hatursglæpum og fyrir bættri stöðu hinsegin umsækjenda um alþjóðlega vernd en í þeim undirflokki Regnbogakortsins uppfyllir Ísland aðeins 17 prósent atriða.

Fyrsta sætið laust
Þau segja augljóst að það þurfi að bæta úr þeim málaflokki og að þau finni fyrir því þörfina daglega í þeirra starfi.
„Sem stendur hefur ekkert ríki uppfyllt öll atriði á lista ILGA-Europe og forystusætið í hinsegin jafnrétti á heimsvísu er þess vegna laust, en þangað á Ísland að stefna. Á síðustu árum hefur það orðið algengara að stjórnvöld ýmissa ríkja séu tilbúin að ala á andúð gegn hinsegin fólki í þeim tilgangi að reka fleyg milli samfélagshópa og skapa sjálfum sér vinsældir. Þeirra á meðal eru nánar samstarfsþjóðir Íslands og því mikilvægt að við tökum skýra afstöðu með frelsi og mannréttindum. Samtökin ‘78 eru svo sannarlega áfram tilbúin að leggja hönd á plóg,“ segir Þorbjörg í yfirlýsingunni.
Samkvæmt nýjasta kortinu hefur orðið lítil sem engin framför á réttindum hinsegin fólks síðastliðið ár í þeim 49 ríkjum Evrópu og Mið-Asíu þar sem staðan er könnuð.
Sker kortið í ár sig úr þar sem hingað til hefur verið hægt að mæla smástígar framfarir ár frá ári.
Malta uppfyllt flest atriði
Malta situr í efsta sæti listans 6. árið í röð og hefur uppfyllt alls 89 prósent atriða. Ísland situr í 14. sæti listans, annað árið í röð, með 54 prósent atriða uppfyllt.
Í tilkynningu frá Samtökunum ´78 segir að í ár hafi tvö atriði bæst við mat ILGA. Það er hvort að til staðar væri möguleiki á breyttri kynskráningu fyrir börn og ungmenni undir lögaldri og lögfesting skyldu þess að bjóða upp á þriðja valmöguleika í kynskráningu, ætlað fyrir kynsegin fólk og oft kallað X-skráning.
Ísland uppfyllti bæði þessi atriði og hélt þannig stöðu sinni frá árinu á undan.
Lög um kynrænt sjálfræði tóku fullt gildi í byrjun árs en samkvæmt þeim mega trans og intersex fólk nú sjálf ráða kynskráningu sinni og nafni í Þjóðskrá. Þá setja lögin bann á ónauðsynleg og óafturkræf inngrip í líkama intersex barna sem hingað til hefur mátt gera án þeirra samþykkis.
Samkvæmt ILGA-Europe er Ísland eina landið sem sýnir framför í málefnum intersex og trans fólks milli ára, en löggjöfin er varðar intersex málin telst þó ekki nægilega víðtæk til þess að Ísland fái stig fyrir að þessu sinni og því er þar ennþá tækifæri til bætinga segir í yfirlýsingunni.
Frekari útskýring á regnbogakortin er hægt að finna hér á vefsíðu ILGA.
Myndræn upplýsingasíða regnbogakortsins er hér.
Alls er metið 71 atriði í sex flokkum. Myndræna framsetningu á frammistöðu Íslands og frekari útskýringu á regnbogakortinu má finna á heimasíðu Samtakanna ´78.