Samtök grænkera á Íslandi sendu nú í annað sinn á stuttum tíma áskorun á sveitarfélögin um að auka framboð á grænkerafæði í leik- og grunnskólum. Samhliða því safna samtökin undirskriftum þar sem kallað eftir því að frá og með hausti 2021 verði hægt að velja um grænkerarétt fyrir þau sem það kjósa í öllum leik- og grunnskólum landsins.
Samtökin sendu í desember síðastliðnum áskorun til sveitarfélaga landsins varðandi framboð á grænkerafæði í leik- og grunnskólum og segir í áskoruninni að undirtektir við henni voru hafi verið dræmar.
„Þetta virðist oft fara eftir áhuga matráðanna eða skólastjóranna hvort að það sé í boði,“ segir Björk Gunnarsdóttir, stjórnarmeðlimur Samtaka grænkera á Íslandi, í samtali við Fréttablaðið.
Hún segir að það væri jákvæð breyting ef að foreldrar eða börnin gætu hakað við einhvers staðar um hvort þau vilji grænkeramat eða ekki.
Minni áhersla á loftslagsmál
Hún segir að þau hafi fengið svör frá einhverjum sveitarfélögum þegar þau sendu áskorunina í desember að þar væri verið að nýta mat úr nærsamfélaginu en segir að það sé löngu vísindalega sannað að það sé ekki endilega umhverfisvænasti kosturinn, ef það er eina markmiðið.
„Við lögðum áherslu á loftslagsþáttinn í fyrri áskorun en ákváðum að sleppa því núna því margir týndu sér alveg í þeim þætti,“ segir Björk.
Nú er meiri áhersla í áskoruninni á fæðið sjálft og aukaálagið sem það getur valdið foreldrum og börnum að hafa ekki greitt aðgengi að grænkeramat í skólanum. Hún segir að þau heyri reglulega frá foreldrum sem eru í vandræðum með þetta og segir að versta dæmið sem þau hafi heyrt um sé þegar barni var meinað um að geyma heimatilbúinn vegan-matinn sinn í ísskáp í skólanum.
Hún heldur að margir foreldrar sem nýlega hafi breytt matarvenjum heima við forðist þennan slag og kjósi að láta börn sín áfram borða það sama og áður í skólanum því þau upplifi sig með sérþarfir og það sé misjafnt hvernig því sé tekið. Hún segir að það væri jákvæð breyting ef að foreldrar eða börnin gætu hakað við einhvers staðar um hvort þau vilji grænkeramat eða ekki.
Í áskoruninni er bent á að hópurinn fer sífellt stækkandi.
„Fjöldi grænkera á Íslandi fer sívaxandi, einkum á meðal fólks á barneignaaldri. Það má því ætla að sá hópur barna sem elst upp á grænkerafæði heima við fari hratt stækkandi. Þrátt fyrir þetta er enn erfitt fyrir mörg börn að fá grænkerafæði í leik- og grunnskólum landsins. Margir skólar fara til að mynda fram á læknisvottorð um að börnin þoli ekki dýraafurðir. Sumir foreldrar bregða á það ráð að fá vistun fyrir börn sín fjarri heimili sínu til þess að þau geti fengið grænkerafæði í skólanum. Aðrir foreldrar nesta börn sín alla daga og kallar það á gríðarlegt aukaálag af hálfu foreldra.“
Þungt regluverk sem hindrar breytingar
Greint var frá því í byrjun árs að hlutfall þeirra grunnskólanemenda sem kjósa að borða vegan að hluta eða að öllu leyti hefur þrefaldast frá árinu 2017. Ástæðurnar eru margar, sum börn líta til umhverfis, önnur til siðferðis. Öðrum finnst þetta bara góð tilbreyting.
Fjórtán prósent grunnskólanemenda sem borða mat frá Skólamat kjósa að borða vegan mat, að öllu leyti eða hluta, á hverjum degi. Væri það yfirfært á fjölda eru það um 1.500 grunnskólanemendur á hverjum degi. Skólamatur þjónustar 33 grunnskóla og 17 leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.
Björk segir að hún vonist til þess að áskorunin kveiki í einhverri umræðu og sveitarfélög grípi tækifærið til að endurskoða verkferla eða reglur sem gætu komið í veg fyrir að breytingin eigi sér stað.
„Sumir virðast geta breytt þessu á einum degi á meðan aðrir virðast vera bundnir af einhverju regluverki sem að kemur í veg fyrir breytinguna,“ segir Björk.
Samtökin benda í þessu samhengi í áskorun sinni á að embætti landlæknis gaf nýverið út handbók fyrir grunnskólamötuneyti (2). Handbókin er ætluð þeim sem útbúa mat fyrir nemendur í grunnskólum eða hafa áhrif á hvaða matur er þar í boði. Þar kemur eftirfarandi fram: „Ef eingöngu er um grænkerafæði (e. vegan) að ræða þýðir það að allar vörur úr dýraríkinu eru útilokaðar, það er að segja kjöt, fiskur, skeldýr, fuglakjöt, egg, mjólk og mjólkurvörur. Skólinn ætti að koma til móts við þarfir barnanna þannig að þau geti fylgt sömu áherslum í sínu fæði og heima eins og kostur er.“