Sam­tök græn­kera á Ís­landi sendu nú í annað sinn á stuttum tíma á­skorun á sveitar­fé­lögin um að auka fram­boð á græn­ker­a­fæði í leik- og grunn­skólum. Sam­hliða því safna sam­tökin undir­skriftum þar sem kallað eftir því að frá og með hausti 2021 verði hægt að velja um græn­kera­rétt fyrir þau sem það kjósa í öllum leik- og grunn­skólum landsins.

Sam­tökin sendu í desember síðast­liðnum á­skorun til sveitar­fé­laga landsins varðandi fram­boð á græn­ker­a­fæði í leik- og grunn­skólum og segir í á­skoruninni að undir­tektir við henni voru hafi verið dræmar.

„Þetta virðist oft fara eftir á­huga mat­ráðanna eða skóla­stjóranna hvort að það sé í boði,“ segir Björk Gunnars­dóttir, stjórnar­með­limur Sam­taka græn­kera á Ís­landi, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hún segir að það væri já­kvæð breyting ef að for­eldrar eða börnin gætu hakað við ein­hvers staðar um hvort þau vilji græn­keramat eða ekki.

Minni áhersla á loftslagsmál

Hún segir að þau hafi fengið svör frá ein­hverjum sveitar­fé­lögum þegar þau sendu á­skorunina í desember að þar væri verið að nýta mat úr nær­sam­fé­laginu en segir að það sé löngu vísinda­lega sannað að það sé ekki endi­lega um­hverfis­vænasti kosturinn, ef það er eina mark­miðið.

„Við lögðum á­herslu á lofts­lags­þáttinn í fyrri á­skorun en á­kváðum að sleppa því núna því margir týndu sér alveg í þeim þætti,“ segir Björk.

Nú er meiri á­hersla í á­skoruninni á fæðið sjálft og auka­á­lagið sem það getur valdið for­eldrum og börnum að hafa ekki greitt að­gengi að græn­keramat í skólanum. Hún segir að þau heyri reglu­lega frá for­eldrum sem eru í vand­ræðum með þetta og segir að versta dæmið sem þau hafi heyrt um sé þegar barni var meinað um að geyma heima­til­búinn vegan-matinn sinn í ís­skáp í skólanum.

Hún heldur að margir for­eldrar sem ný­lega hafi breytt matar­venjum heima við forðist þennan slag og kjósi að láta börn sín á­fram borða það sama og áður í skólanum því þau upp­lifi sig með sér­þarfir og það sé mis­jafnt hvernig því sé tekið. Hún segir að það væri já­kvæð breyting ef að for­eldrar eða börnin gætu hakað við ein­hvers staðar um hvort þau vilji græn­keramat eða ekki.

Í á­skoruninni er bent á að hópurinn fer sí­fellt stækkandi.

„Fjöldi græn­kera á Ís­landi fer sí­vaxandi, einkum á meðal fólks á barn­eigna­aldri. Það má því ætla að sá hópur barna sem elst upp á græn­ker­a­fæði heima við fari hratt stækkandi. Þrátt fyrir þetta er enn erfitt fyrir mörg börn að fá græn­ker­a­fæði í leik- og grunn­skólum landsins. Margir skólar fara til að mynda fram á læknis­vott­orð um að börnin þoli ekki dýra­af­urðir. Sumir for­eldrar bregða á það ráð að fá vistun fyrir börn sín fjarri heimili sínu til þess að þau geti fengið græn­ker­a­fæði í skólanum. Aðrir for­eldrar nes­ta börn sín alla daga og kallar það á gríðar­legt auka­á­lag af hálfu for­eldra.“

Þungt regluverk sem hindrar breytingar

Greint var frá því í byrjun árs að hlut­fall þeirra grunn­skóla­nem­enda sem kjósa að borða vegan að hluta eða að öllu leyti hefur þre­faldast frá árinu 2017. Á­stæðurnar eru margar, sum börn líta til um­hverfis, önnur til sið­ferðis. Öðrum finnst þetta bara góð til­breyting.

Fjór­tán prósent grunn­skóla­nem­enda sem borða mat frá Skóla­mat kjósa að borða vegan mat, að öllu leyti eða hluta, á hverjum degi. Væri það yfir­fært á fjölda eru það um 1.500 grunn­skóla­nem­endur á hverjum degi. Skóla­matur þjónustar 33 grunn­skóla og 17 leik­skóla á höfuð­borgar­svæðinu og á Suður­nesjum.

Björk segir að hún vonist til þess að á­skorunin kveiki í ein­hverri um­ræðu og sveitar­fé­lög grípi tæki­færið til að endur­skoða verk­ferla eða reglur sem gætu komið í veg fyrir að breytingin eigi sér stað.

„Sumir virðast geta breytt þessu á einum degi á meðan aðrir virðast vera bundnir af ein­hverju reglu­verki sem að kemur í veg fyrir breytinguna,“ segir Björk.

Sam­tökin benda í þessu sam­hengi í á­skorun sinni á að em­bætti land­læknis gaf ný­verið út hand­bók fyrir grunn­skóla­mötu­neyti (2). Hand­bókin er ætluð þeim sem út­búa mat fyrir nem­endur í grunn­skólum eða hafa á­hrif á hvaða matur er þar í boði. Þar kemur eftir­farandi fram: „Ef ein­göngu er um græn­ker­a­fæði (e. vegan) að ræða þýðir það að allar vörur úr dýra­ríkinu eru úti­lokaðar, það er að segja kjöt, fiskur, skel­dýr, fugla­kjöt, egg, mjólk og mjólkur­vörur. Skólinn ætti að koma til móts við þarfir barnanna þannig að þau geti fylgt sömu á­herslum í sínu fæði og heima eins og kostur er.“

Hægt er að skrifa undir á­skorun sam­takanna hér.