Fagfélag klassískra söngvara á Íslandi, Klassís, skora á ráðherra menningarmála að stöðva fjárveitingar til Íslensku óperunnar.

Félagið fagnar sigri Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunni sem féll í lok síðasta mánaðar.

Þetta kemur fram í ályktun frá Klassís en þar segir að niðurstaðan staðfesti rétt söngvara til að njóta lágmarkskjara samkvæmt kjarasamningi.

Brotið gegn kjarasamningum

Þóra vann sem fyrr segir sigur gegn óperunni í Landsrétti í lok síðasta mánaðar en í dómnum kemur fram að brotið hafi verið gegn kjarasamningum í þremur mikilvægum atriðum.

Lægri laun hafi verið greidd en kjarasamningur kveði á um og ekki hafi verið greidd yfirvinna né launatengd gjöld sem beri að gera samkvæmt samningi.

Klassís telur málflutning Íslensku óperunnar hafa borið vott um vanþekkingu á framleiðsluferli óperusýninga og að stéttinni hafi verið sýnd lítilsvirðing.

Dómurinn hafi þýðingu fyrir alla söngvara og staðfestir að óheimilt sé að sniðganga kjarasamninga listamanna.

Stjórn og óperustjóri víki

Félagsmenn Klassís telja frekar fjárveitingar til sjálfseignarstofnunarinnar, Íslensku óperunnar, ekki réttlætanlegar nema sitjandi stjórn og óperustjóri víki.

Þá er kallað eftir heilbrigðu og ásættanlegu starfsumhverfi til óperuflutnings á meðan undirbúningur stofnunar Þjóðaróperu standi yfir.

Í tilkynningu Klassís er vantraustyfirlýsing á stjórn og óperustjóra óperunnar frá því í janúar ítrekuð vegna stjórnunarhátta á undanförnum árum.

Settir út í kuldann

„Félagsmenn telja margir að „þeir séu settir út í kuldann“ fyrir það eitt að sýna þakklæti sitt og stuðning við kjarabaráttu söngvara. Svo er komið að margir okkar fremstu söngvara stíga ekki á svið í uppfærslum ÍÓ vegna þess að þeir hafa lent í ágreiningi við óperustjóra og fá því ekki tækifæri eða þeir geta ekki lengur hugsað sér að starfa fyrir stofnunina.

Félagsmenn Klassís sjá fram á bjarta tíma í faginu í nánustu framtíð, nái ofangreint fram að ganga. Mikill mannauður býr í íslenskum söngvurum sem þyrstir í að byggja upp frjóan starfsvettvang með stofnun nýrrar Þjóðaróperu og sinna sínu menningarlega hlutverki, þjóðinni allri til heilla,“ segir jafnframt í lok ályktunarinnar.