Samtökin ‘78 og Reykjavik Pride lýsa yfir djúpstæðum áhyggjum af því eldfima ástandi sem skapast hefur fyrir hinsegin fólk í Póllandi.
Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að á síðustu mánuðum hafi andúð á hinsegin fólki náð áður óþekktum hæðum fyrir tilstilli ríkisstjórnar landsins, margra sveitar- og borgarstjórna og kaþólsku kirkjunnar.
„Stjórnmálafólk og trúarleiðtogar hafa nýtt dagskrárvald sitt til þess að viðhafa hatursfull ummæli og ýta undir ranghugmyndir um hinsegin fólk,“ segir í yfirlýsingunni.
Samtökin ´78 og Hinsegin dagar skora á utanríkisráðherra Íslands, Guðlaug Þór Þórðarson, og ríkisstjórnina alla að fordæma hatursáróður pólskra stjórnvalda gegn hinsegin fólki og hvetja þau til þess að hverfa frá „þeirri fjandsamlegu stefnu sem þau hafa markað sér.“
Í yfirlýsingunni segir að í Póllandi hafi margt hinsegin fólk miklar áhyggjur og óttist um bæði líf sitt og framtíð. Þau segja að hatur á hinsegin fólki megi rekja til orðræðu valdafólks í stjórnmálaflokknum Lög og réttlæti, bæði fyrir Evrópuþingskosningarnar sem fóru fram í maí og í aðdraganda þingkosninga sem mun fara fram í Póllandi í haust.
Þau segja að á síðustu mánuðum og dögum hafi óhugnanlegar fréttir borist frá Póllandi. Í vikunni var, sem dæmi, greint frá því að Gleðiganga hafi í fyrsta sinn verið haldin í borginni Bialystok í Austur-Póllandi til að krefjast aukinna réttinda hinsegin fólks. Fleiri mættu til að mótmæla göngunni en til að taka þátt í henni og réðust mótmælendur á meðlimi friðsællar göngunnar með grófu ofbeldi.
Þá hafa tugir pólskra borga hafa lýst því yfir að þær séu lausar við „hinsegin hugmyndafræði“. Vikublaðið Gazeta Polska hefur sent út límmiða sem lesendur geta nýtt til merkingar á „hinseginlausum svæðum“.
Yfirlýsingu þeirra er hægt að sjá hér að neðan í heild sinni.