Konur í kvik­myndum og sjón­varpi (KIKS), Fé­lag kvik­mynda­gerðar­manna (FK), Sam­tök kvik­mynda­leik­stjóra (SKL) og Fé­lag leik­skálda og hand­rit­söfunda (FLH) hafa sent á­skorun á Lilju Al­freðs­dóttur, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, að gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir lokun menningar­stofunarinnar Bíó Para­dís.

Vilja fag­fé­lögin þannig tryggja að á Ís­landi sé í það minnsta eitt kvik­mynda­hús sem sinnir kvik­mynda­menningu í sinni víð­tækustu mynd.

„Við teljum stofnunina gegna afar mikil­vægu menningar­legu hlut­verki þar sem hún er eina kvik­mynda­húsið á Ís­landi sem ekki er rekið í hagnaðar­skyni, en stofnunin hefur það að mark­miði að bjóða upp á sýningar á kvik­myndum frá öllum heims­hornum, list­rænar kvik­myndir, heimilda­myndir og stutt­myndir, auk þess að hýsa kvik­mynda­há­tíðir og aðra menningar­við­burði af öllum stærðum og gerðum,“ segir í á­skoruninni sem barst fjöl­miðlum.

Að mati fé­laganna má ekki heldur van­meta hið mikil­væga fræðslu­starf sem unnið er í húsinu með grunn­skóla­börnum í því skyni að efla kvik­mynda­læsi frá unga aldri.

„Að auki, lítum við á mögu­lega lokun Bíó Para­dísar sem skref aftur­á­bak í bar­áttunni fyrir jöfnum hlut kynja í kvik­myndum, sem er al­var­legt mál í ljósi þess að það er sam­fé­lags­leg sátt um það að kynja­jafn­rétti sé eitt af mikil­vægustu bar­áttu­málum sam­tímans.“

Þessu til rök­stuðnings er bent á hlut­fall kvenna í fram­leiðslu á kvik­myndum í Hollywood árið 2019, en í þeim sést að konur í leik­stjóra­stóli voru 12%, kven­hand­rits­höfundar voru 20%, töku­konur 2%, kven­kyns klipparar 23%, kven­kyns tón­skáld 6% og kven­fram­leið­endur voru 26%.

Að mati fé­laganna er á Ís­landi auðugt menningar- og lista­líf þar sem listir í sinni víð­tækustu mynd blómstra.

„Ef ráð­herra ætlar virða að vettugi eina menningar­lega kvik­mynda­hús landsins og leyfa því að við­gangast að það hafi ekki tök á að starfa vegna fjár­skorts, þá er stórt skarð hoggið í þetta menningar­líf. Skarð sem erfitt verður að fylla í vegna þess að nú þegar hefur verið unnið hið mikil­væga upp­byggingar- og þróunar­starf sem felst í því að ýta slíku kvik­mynda­húsi úr vör. Við á­lyktum að það sé skylda ráð­herra að átta sig á mikil­vægi menningar­legs kvik­mynda­húss, sér í lagi í ljósi þess að staf­rænir miðlar og kvik­myndir eru stærsti á­hrifa­valdurinn í lífi yngri og komandi kyn­slóða.“