Bar­áttu­hópur gegn of­beldis­menningu hefur hrint af stað undir­skrifta­söfnun til að skora á Katrínu Jakobs­dóttir að víkja Jóni Gunnars­syni úr em­bætti dóms­mála­ráð­herra.

Berg­lind Þór­steins­dóttir, einn af stofn­endum hópsins, segir það vera súrrealískt að Jón hafi verið skipaður í em­bættið til að byrja með og að ráðning Brynjars sem að­stoðar­mann hans hafi verið salt í sárið. „Þetta er í rauninni bara verið að gefa þol­endum fingurinn,“ segir hún.

„Okkur finnst þetta bara vera van­virðing við konur,“ segir Berg­lind. „Þetta er maður sem er búinn að styðja tálmunar- og fangelsis­frum­varpið og hann mælir gegn þungunar­rofs­frum­varpinu hennar Svan­dísar.“

Ólíklegt að þeir ráðist í framfarir

Innan hópsins er til­finningin sú að Jón og Brynjar séu báðir aftur­halds­seggir sem ó­lík­legir séu til að ráðast í þær fram­farir sem verið er að krefjast, að sögn Berg­lindar.

„Aðal­málið er að það er búið að kalla eftir breytingum og það fer ekkert á milli mála. Þetta eru ekki réttu aðilarnir til að leiða fram breytingar á réttar­kerfinu og úr­bætur fyrir þol­endur, eitt­hvað þol­enda­vænna um­hverfi,“ segir Berg­lind.

Berg­lind stofnaði hópinn á­samt fleiri konum í októ­ber. „Ég fékk strax alveg rosa­lega öflugar konur með mér í að stofna þennan bar­áttu­hóp gegn of­beldis­menningu,“ segir hún.

Ólga yfir skipun Jóns og ráðningu Brynjars

Hópurinn var stofnaður að ein­hverju leiti sem við­bragð við at­huga­semdum Sigurðar G. Guð­jóns­sonar hæsta­réttar­lög­manns þar sem hann meðal annars birti hluta úr skýrslu­töku yfir þolanda í of­beldis­máli og vóg að trú­verðug­leika Þór­dísar Gyðu Arnars­dóttir, annarri tveggja kvenna sem kærðu Kol­bein Sig­þórs­son fyrir of­beldi.

Berg­lind segist hafa fundið fyrir ólgu bæði innan hópsins og í sam­fé­laginu eftir skipun Jóns í em­bætti og ráðningu Brynjars sem að­stoðar­mann hans. Fólk í hópnum hafi viljað mót­mæla og því var undir­skrifta­söfnunin hafin fyrr í dag.

Þykir umræðan ómálaefnaleg og ekki svaraverð

Jón Gunnars­son, Svan­dís Svavars­dóttir, Hall­dóra Mogen­sen og Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir voru gestir í Viku­lokunum á Rúv í dag. Nokkuð var rætt um ráðningu Brynjars Níels­sonar sem að­stoðar­mann Jóns í innan­ríkis­ráðu­neytinu og ljóst er að Halldóra, Þorgerður og Svandís bera ekki mikið traust til þeirra hvað kyn­ferðis­brot varða.

Jón segist hafa ráðið Brynjar sem að­stoðar­mann vegna „yfir­burða­þekkingar og reynslu“ á mála­sviðum innan ráðu­neytisins og vísar til störf hans sem hæsta­réttar­lög­manns.

Jón segist lítið hafa velt fyrir sér sam­fé­lags­um­ræðunni þegar kom að því að ráða að­stoðar­mann. „Þetta er á­kvörðun tekin á fag­legum nótum og ég hef engar á­hyggjur af þessari um­ræðu, hún bara truflar mig ekkert,“ segir hann.

„Mér finnst margt af því sem hefur komið fram alls ekki svara­vert og mjög ó­mál­efna­legt og engin inni­staða fyrir,“ segir Jón. „Ég skelli skolla­eyrum fyrir slíku. Ég læt þetta ekkert trufla mig og læt verkin tala.“

„Það segir ó­trú­lega mikið um pólitík fólks“

Hall­dóra Mogen­sen, þing­maður Pírata, segist þykja þessi ráðning mjög furðu­leg. „Mér þykir það vera dá­lítið hættu­legt að vita til þess að þessi tveir menn séu að fara að vinna saman að því að taka á kyn­ferðis­brota­málum,“ segir hún. „Ég trúi ekki að það sé neitt upp á teningnum að taka al­menni­lega á þeim mála­flokki þegar kemur að of­beldis­málum og kyn­ferðis­brota­málum.“

Þá segir Hall­dóra það vera al­var­legt að Jón skuli ráða til sín að­stoðar­mann sem hefur að­eins lagt fram eitt þing­mál. „Og það er tálmunar­frum­varpið, sem snýr að því að fangelsa for­eldra sem eru að tálma um­gengni barna. Það segir ó­trú­lega mikið um pólitík fólks,“ segir hún.

Þor­gerður Katrín Gunnard­sóttir, for­maður Við­reisnar, segist hafa átt gott sam­starf við báða mennina og þykja vænt um þá. Hún segist þó ekki treysta þeim fyrir þessum mála­flokki,

„Það er ekki hægt að líta fram hjá þeirra pólitík þegar kemur að til dæmis kven­frelsis­máli. Þungunar­rofs­frum­varpið sem Svan­dís lagði fram, hverjir voru það sem studdu það ekki? For­usta Sjálf­stæðis­flokksins, Jón Gunnars­son, Brynjar Níels­son, þið greidduð at­kvæði gegn þessu,“ segir Þor­gerður.

Svan­dís Svavars­dóttir ný­skipaður sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra segir að hún hefði helst treyst sjálfri sér fyrir þessum mála­flokki honum eða öðrum úr Vinstri­hreyfingunni.

„Mér finnst að enginn ætti að víkja sér frá því að þetta dregur fram á­kveðna mynd og við þurfum að vera til­búin að ræða þá mynd,“ segir Svan­dís. Hún segir að farið sé skýrum orðum um hvað skuli gera í stjórnar­sátt­málanum og að Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra muni sjá til þess að því sé fylgt eftir.