Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna skora á yfirvöld í Hvíta-Rússlandi að hætta ofsóknum á hendur stjórnarandstæðingum í landinu og að virða frelsi og mannréttindi.

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu þeirra sem send var út í gær. Ráðherrarnir lýsa sérstökum áhyggjum af ofbeldi gagnvart mótmælendum sem safnast hafa saman í kjölfar forsetakosninga sem fram fóru síðastliðinn sunnudag. Í yfirlýsingunni segir að kosningarnar hafi hvorki farið fram í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Hvíta-Rússlands né staðist alþjóðleg viðmið um lýðræði og réttarríki.

Alexander Lukashenko, sem verið hefur forseti síðustu 26 árin, var samkvæmt opinberum tölum endurkjörinn með tæplega 80 prósentum atkvæða. Helsti keppinautur hans, Svetlana Tikhanovskaya, hlaut tæp sjö prósent. Hún flúði til Litháen á mánudag en í myndbandi á YouTube segist hún hafa gert það barna sinna vegna.