Stjórnarskrárfélagið hefur skorað á Katrínu Jakobsdóttur að segja af sér sem forsætisráðherra. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér og samþykkt var á aðalfundi félagsins í gær.

Þar segir að félagið fordæmi framgöngu Alþingis gagnvart lýðræði í landinu og skora á Katrínu að taka fulla ábyrgð á þeirri afstöðu sinni að greita atkvæði með því að nýliðnar alþingiskosningar skyldu standa þrátt fyrir alvarleg brot á kosningarlögum. Ef Mannréttindadómstóll Evrópu kemst að þeirri niðurstöðu að með staðfestingu kosninganna hafi Ísland gerst brotlegt gegn Mannréttindasáttmála Evrópu skorar félagið á Katrínu að segja af sér.

„Ákvörðun Alþingis heggur stórt og varanlegt skarð í traust kjósenda gagnvart sjálfu löggjafarvaldinu, enda óumdeilt að umfangsmikil lögbrot áttu sér stað í talningu og meðferð atkvæða í Norðvesturkjördæmi,“ segir í ályktuninni.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 segir Katrín Oddsdóttir formaður Stjórnarskrárfélagsins að forsætisráðherra hafi gengið lengra en hún hafi þurft þegar taka þurfti afstöðu gagnvart kosningunum.

„„En hún vill taka afstöðu með þessum kosningum og okkur finnst bara mjög eðlilegt í ljósi þess að hún er æðsti embættismaður ríkisins að hún taki þá líka ábyrgð ef Mannréttindadómstóllinn kemst að því að þetta sé lögbrot.“