Undirskriftasöfnun hefur verið sett af stað þar sem skorað er á Birgi Þórarinsson, fyrrverandi oddvita Miðflokksins og núverandi flokksmanni Sjálfstæðisflokksins, að segja af sér þingmennsku.

Í tilkynningu segir að ljóst sé að Birgir hafi boðið sig fram í nýliðnum alþingiskosningum undir fölsku flaggi. Hann hafi svindlað á kjósendum með því að láta kjósa sig fyrir flokk sem hann yfirgaf svo strax að loknu kjöri. Hópurinn telur það alvarlega aðför að trausti kjósenda á framboðum og kosningum í lýðræðisríki, það eigi ekki að viðgangast.

Hópurinn kallar sig #BurtmeðBirgi og er þverpólitískur hópur fólks sem ofbýður framkoma þingmannsins í garð kjósenda og aðför hans að rótum lýðræðisins að því er fram kemur í tilkynningu.

Ákvörðun Birgis hefur verið harðlega gagnrýnd. Karl Gauti Hjaltason, fyrrverandi þingmaður Miðflokksins, segir Birgi meðal annars hafa verið búinn að taka þessa ákvörðun áður en hann var kosinn á þing. Karl segir það óheilindi gagnvart þeim sem unnu með Birgi í framboðinu og því fólki sem studdi flokkinn.

Heiðbrá Ólafsdóttir, sem skipaði þriðja sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi, sagði í samtali við fréttablaðið fyrr í mánuðinum að Birgir ætti að finna þann litla sóma sem er eftir og segja sig frá sínu þingsæti.

Almenningur sat ekki heldur á skoðunum sínum og tísti mikið um ákvörðun Birgis á samfélagsmiðlinum Twitter. Ljóst var að fólk var ekki parsátt með ákvörðun þingmannsins.