Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Íslands, gagnrýnir skopmynd Helga Sigurðssonar, teiknara hjá Morgunblaðinu, sem sýnir karlmann nýta sér sturtuaðstöðu kvenna undir því yfirskini að hafa breytt um kyn í Þjóðskrá. „Það er gífurlega mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvers vegna svona „húmor“ er beinlínis hræðsluáróður og er ekki merki um sérstaklega góða né beitta kímnigáfu,“ segir Ugla í færslu á Facebook síðu sinni.

Atvik sem á sér enga fyrirmynd

Ugla telur skopmyndina ala á ótta gagnvart transfólki og gefa í skyn að breytt löggjöf Þjóðskráar um skráningu kyns muni ýta undir það að karlar muni arka inn í kvennaklefa í sundi eftir að hafa breytt kyni sínu í Þjóðskrá.

Hún segir þessa túlkun lagabreytinganna ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum þar sem slík vandamál finnist ekki hjá þeim þjóðum sem breytt hafi kynskráningu á sambærilegan hátt. Ugla tekur einnig fram að komi slíkt atvik upp séu til staðar lög sem verndi fólk gegn áreiti.

Grafa undan réttindum trans fólks

„Þessi rök eru þekkt stef hjá þeim sem beita sér gegn réttindum trans fólks, og grípa því til þess að gera sér upp aðstæður sem eru ólíklegar til að verða að veruleika, einfaldlega til þess að ala á ótta og grafa undan réttindabaráttu trans fólks.“

Ugla furðar sig á því að trans fólk sé látið gjalda fyrir það sem karlar myndu hugsanlega gera og segir það endurspegla uppbyggingu samfélagsins. „Engin rök eru því bak við þennan ótta, enda er ótti oft ekki á rökum reistur.“ Hún segir lagabreytinguna ekki koma itl með að hafa áhrif á neinn annan en hópin sem hún sé sniðin að.

„Helgi Sigurðsson ætti að skammast sín“

Ugla segir Helga hafa misnotað stöðu sína, sem einstakling sem gefur úr efni, til að dreifa áróðri sem byggist á hans eigin óupplýstu skoðunum. Hún tekur einnig fram að áróður hans ýti undir fjandsemi gegn minnihlutahópum.

„Þessi skopmynd er því bara alls ekkert fyndin eða beitt á nokkurn hátt. Hún er ömurlega ófrumleg, síendurtekin og hallærisleg,“ segir Ugla í færslunni og bætur við að Helgi megi skammast sín fyrir atferli sitt.

Færsluna má sjá í heild sinn hér: