Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að uppsögn Ólöfar Helgu Adolfs­dóttur, trúnaðar­manni í hl­að­deild Icelandair á Reykja­víkur­flug­velli, muni lita samskipti í komandi kjaraviðræðum.

Stjórnvöld breyti viðhorfum

Drífa segir í föstudagspistli sínum að hún vilji að ný ríkisstjórn geri húsnæðismál að aðalatriði í stjórnarmyndunarviðræðunum. Verkalýðshreyfingin geri skýra kröfu um að stjórnvöld breyti viðhorfum sínum í húsnæðismálum.

„Það er skýr krafa verkalýðshreyfingarinnar að stjórnvöld breyti viðhorfum sínum og húsnæðismálin verði eitt af stóru málunum við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Rétturinn til öryggis verður að vera í forgrunni og stórfelld uppbygging húsnæðis án hagnaðarsjónarmiða verður að eiga sér stað,“ segir Drífa.

„Það er nauðsynlegt að koma húsnæðiseigendum í skjól fyrir verðbólgu og vaxtabreytingum þannig að fólk hafi möguleika á að skipuleggja framtíðina. Réttindi leigjenda verður að tryggja með nýjum lögum og binda verður endi á búsetu í atvinnuhúsnæði.“

Lýtur að kjarna verkalýðshreyfingarinnar

Varðandi mál Ólafar þá verði það rekið fyrir dómstólum, málið lúti að kjarna verkalýðshreyfingarinnar. „Að fólk geti beitt sér í réttindabaráttu fyrir sig og félaga sína án þess að hefnast fyrir það með atvinnumissi,“ segir Drífa. Icelandair hefur borið fyrir sig að Ólöf Helga hafi ekki verið trúnaðarmaður, skráningar benda þó til annars.

„Skömm yfirmanna hjá Icelandair er mikil að hafa ekki einungis rekið trúnaðarmann, heldur líka einu konuna sem vann þessi störf á flugvellinum. Þá stingur í augu að Samtök atvinnulífsins virðast leggja blessun sína yfir framferðið, þrátt fyrir skýra lagavernd trúnaðarmanna gagnvart órökstuddum uppsögnum. Svona grundvallarbrot einstakra atvinnurekenda gegn réttindum starfsfólks munu lita samskipti á vinnumarkaði og komandi kjaraviðræður.“