Frá og með morgun­deginum, 20. októ­ber, verður hreinsi­stöð skólps við Ána­naust tekin úr rekstri vegna við­halds. Sam­kvæmt til­kynningu frá Veitum verður stöðin ó­starf­hæf í um þrjár vikur og skólpið gróf­hreinsað áður en því verður veitt út í sjó.

Gróf­hreinsun skólps felur í sér að allt rusl er fjar­lægt úr því áður en það yfir­gefur hreinsi­stöðina. Í til­kynningu frá Veitum kemur fram að með því sé hægt að koma í veg fyrir að fast efni endi í fjöru­borði, en kólí­gerla­magn verður vita­skuld tals­vert hærra en við­miðunar­mörk gera ráð fyrir, á meðan á að­gerðinni stendur.

Veitur munu á meðan lokuninni stendur fylgjast með á­standi í fjörum og hreinsa þær er þarf. Í til­kynningu segir að með gróf­hreinsun sé komið í veg fyrir að rusl fari í sjó en er um leið minnt á að klósett eru ekki rusla­fötur og að ekkert eigi að fara í þau nema líkam­legur úr­gangur og klósett­pappír.

Á myndinni má sjá trompetið sem er bilað og dælur sem því tengjast.
Mynd/Veitur

Ekki gott að fara í sjósund norðan við hreinsistöðina

Ólöf Snæ­hólm Baldurs­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi Veitna, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að ekki sé mælt með því að fara í sjósund eða í fjöruna norðan megin við skólp­hreinsi­stöðina, það er við Ána­naust, Gróttu og út á Sel­tjarnar­nes, á meðan lokuninni stendur.

„Það er erfitt að segja hvernig ná­kvæm­lega straumar hafsins munu liggja. Við hvetjum ekki til þess að fólk sé að fara í fjöru eða sjó við norðanverða strandlengju Reykjavíkur og Seltjarnarnes en vitum minna um hvaða áhrif þetta hefur hinum megin, þar sem að Naut­hóls­víkin er, meðal annars,“ segir Ólöf.

Hún segir að heil­brigðis­eftir­lit Reykja­víkur muni á meðan lokunni stendur taka sýni reglu­lega og fylgjast með stöðunni.

„En þetta veltur á svo mörgu. Sjávar­straumum og veðri því kólí­gerlar lifa mis­lengi eftir veðri, en norðar­megin ætti fólk ekki að fara í sjósund og ekki vera í fjörunni,“ segir Ólöf.

Við­gerðir báru ekki árangur

Fram kemur í til­kynningunni að skipta þurfi um svo­kallað „trompet“ en það er nokkurs konar safn­lögn þar sem straumar þriggja út­rásar­dæla stöðvarinnar sam­einast í einn djúpt í iðrum stöðvarinnar. Frá trompetinu er hreinsuðu skólpi dælt um fjóra kíló­metra út á Faxa­flóa þar sem sjórinn tekur við því og brýtur niður líf­rænu efnin. Trompetið er því síðasti við­komu­staður frá­veitu­vatnsins áður en það yfir­gefur hreinsi­mann­virkið.

Trompetið er í grunninn ryð­frí stál­pípa, um 10 metra löng, 1200 milli­metrar að þver­máli og vegur saman­sett um 1,5 tonn. Fjar­lægja þarf það um lúgu í lofti rýmisins. Að því loknu verður nýja trompetinu komið fyrir og það tengt dælum í þröngum og krefjandi að­stæðum.

Undan­farna mánuði hafa komið lekar að trompetinu og hafa verið gerðar til­raunir til að bæta það en árangur hefur verið tak­markaður. Því var tekin á­kvörðun um að skipta því út fyrir nýtt og hafinn undir­búningur og hönnun á nýju stykki auk inn­kaupa á öðrum tengdum búnaði, svo sem lokum og þönum. Þar sem þetta er afar stór og flókinn búnaður hefur hönnun hans reynst tíma­frek og smíðin krefjandi auk þess sem erfitt hefur reynst að út­vega efni.